Körfubolti

Hæstánægður með sigur í fyrsta heimaleik sem þjálfari ÍR

Andri Már Eggertsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari ÍR-ringa, var eðlilega sáttur með sigur sinna manna í kvöld.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari ÍR-ringa, var eðlilega sáttur með sigur sinna manna í kvöld. vísir/ernir

ÍR fór illa með KR í kvöld og vann 22 stiga sigur 107-85. Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari ÍR, var í skýjunum með sigurinn.

„Ég er ánægður með leikinn í heild sinni. Ég var ánægður með hvernig við svöruðum þegar KR minnkaði muninn. Það vantar oft sjálfstraust í lið sem hefur verið að tapa mikið af leikjum og mér fannst við leysa það vel,“ sagði Friðrik Ingi og hrósaði þeim fáu stuðningsmönnum sem höfðu kost á að mæta á leikinn.

KR minnkaði leikinn í þrjú stig í 2. leikhluta en þá tók við 17-4 kafli frá ÍR sem setti þá í bílstjórasætið í hálfleik. 

„Okkur tókst að stilla saman strengi og laga það sem þurfti að laga. Sóknarleikurinn okkar var óskipulagður á köflum sem KR refsaði okkur fyrir. Okkur tókst að laga það og þétta varnarleikinn.“

Friðrik Ingi var ánægður með varnarleik ÍR í kvöld. Það var mikil barátta í liðinu sem stal 12 boltum. 

„Við náðum að komast inn í sendingalínur sem skilaði stolnum boltum og auðveldum körfum sem telur mikið.“

Igor Maric, nýjasti leikmaður ÍR, skoraði 12 stig í kvöld og talaði Friðrik afar vel um hans persónu.

„Igor Maric er frábær karakter og öllu sem tengist íþróttamennsku. Hann er 35 ára gamall og hann hefur passað vel upp á sig.“

„Þrátt fyrir að Igor náði aðeins einni æfingu með okkur lét hann strax til sín taka með sínu nefi fyrir leiknum. Hann mun hjálpa liðinu á fjölbreyttan hátt og hlakka ég til að vinna meira með honum,“ sagði Friðrik Ingi að lokum. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.