Sport

Birti myndband af hrottalegu ofbeldi fyrrverandi hlaupara NFL-deildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Myndband af hrottalegu ofbeldi Zac Stacy fer nú sem eldur um sinu um netheima.
Myndband af hrottalegu ofbeldi Zac Stacy fer nú sem eldur um sinu um netheima. Joe Robbins/AAF/Getty Images

Myndband af Zac Stacy, fyrrverandi hlaupara New York Jets og St. Louis Rams í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, beita fyrrverandi kærustu sína hrottalegu heimilisofbeldi fyrir framan fimm mánaða gamlan son þeirra fer nú sem eldur um sinu um netheimana.

Stacy réðst á fyrrverandi kærustu sína, Kristin Evans, á heimili hennar síðasta laugardag þar sem hann kýldi hana í höfuðið og fleygði henni síðan í sjónvarpið.

Þessi þrítugi fyrrverandi leikmaður NFL-deildarinnar missti algjörlega stjórn á skapi sínu er hann reifst við barnsmóður sína. Á myndbandinu má heyra hana grátbiðja Stacy um að hætta.

Heimildir herma að konan hafi sótt um nálgunarbann á Stacy fyrir sig og son sinn síðastliðinn mánudag, en í umsókninni kemur fram að Stacy hafi komið til hennar á laugardaginn til að hitta son sinn. Þar kemur einnig fram að hann hafi beitt hana ofbeldi allt frá því að hún varð ólétt af barni þeirra á seinasta ári.

Lögreglan í Flórída hefur gefið út handtökuskipun á hendur Stacy, en hann er sagður á flótta.

Kristin Evans, fyrrverandi kærasta Zac Stacy, birti svo í kjölfarið myndband þar sem hún þakkar fyrir þann stuðning sem hún hefur fengið og biðlar til þeirra sem gætu vitað hvar Stacy er niðurkominn að hafa samband við lögreglu.

Myndband af atvikinu birtist á Twitter, Instagram og öðrum miðlum og stutt leit gerir fólki auðvelt fyrir að finna það. Rétt er þó að vara fólk við efni myndbandsins.

NFLFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.