Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Stjarnan 34-32 | Fyrsti sigur Gróttu kom gegn topp­liðinu

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Gróta vann loks leik í kvöld.
Gróta vann loks leik í kvöld. Vísir/Vilhelm

Tvöföld kaflaskipti urðu í kvöld í Hertz-höllinni í 7. umferð Olís deildar Karla. Grótta vann sinn fyrsta sigur í deildinni í kvöld er þeir fengu Stjörnuna í heimsókn en fyrir leikinn hafði Stjarnan sigrað alla sína leiki á tímabilinu. 

Þeir fyrrnefndu leiddu í hálfleik, 18-15 en eftir frábært áhlaup Gróttu fyrstu tíu mínútur síðari hálfleiks tókst þeim að sigra leikinn með tveimur mörkum, 34-32.

Stjarnan var með yfirhöndina alveg frá fyrstu mínútu leiks en eftir aðeins korters leik var hún komin með sex marka forskot, 12-6. Þá tók Arnar Daði, þjálfari Gróttu, leikhlé og tókst þeim að minnka muninn niður í tvö mörk, 13-11. Stjörnumenn héldu sér þó í ágætis forskoti út fyrri hálfleikinn en munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk þar til flautað var til hálfleiks.

Arnar Daði spígsporaði á hliðarlínunni í kvöld.vísir/hulda margrét

Stjarnan var með þriggja marka forskot í hálfleik, 18-15 og þegar liðin snéru aftur til vallarins fengum við að sjá glænýtt Gróttulið því eftir aðeins þriggja mínútna síðari hálfleik var Grótta búin að jafna 18-18.

Staðan var jöfn næstu mínútur og var það ekki fyrr en á 40. mínútu sem Gróttu tókst að komast yfir í fyrsta skipti í leiknum. Nema þeir höfðu ekki lokið sér af og voru komnir í fjögurra marka forystu 24-20 aðeins fjórum mínútum síðar.

Patrekur Jóhannesson tók leikhlé og kom hans mönnum aftur inn í leikinn sem náðu fínu áhlaupi en þeir náðu að minnka niður í eitt mark. Grótta var hins vegar ekki tilbúin að láta sigurinn frá sér og hélt liðið út þar til flautað var til leiksloka, lokatölur 34-32.

Grótta - ÍR Olís deild karla vetur 2021 handbolti HSÍ

Af hverju vann Grótta?

Arnar Daði, þjálfari Gróttu, virðist hafa komið með hörku ræðu í hálfleik því strax þegar síðari hálfleikur var flautaður á fengum við að sjá allt annað gróttulið heldur en við sáum í fyrri hálfleik. 

Það small allt saman hjá þeim, sóknarleikurinn var frábær og komu mörkin hvert á eftir öðru. Varnarleikurinn batnaði einnig til muna og varð markvarslan ekki síðri. Gróttuliðið snéri blaðinu gjörsamlega við, voru virkilega agaðir og varð liðsandinn virkilega góður. Það var virkilega gaman að fylgjast með liðinu í síðari hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Birgir Steinn Jónsson átti frábæran leik fyrir Gróttu en hann skoraði sjö mörk en hann var einnig virkilega mikilvægur hlekkur í vörn Gróttu. Ólafur Brim Stefánsson steig upp í síðari hálfleik og skoraði hann sex mörk í leiknum. 

Einar Baldvin átti frábæran leik í kvöld.Vísir/Vilhelm

Einar Baldvin Baldvinsson á virkilega mikið hrós skilið eftir frábæra markvörslu í leiknum og þá aðallega í síðari hálfleik. Hann var með 17 varða bolta og þar af tvö vítaskot.

Í liði Stjörnunnar var Hafþór Vignisson markahæstur með átta mörk og þar með markahæsti leikmaður vallarins. Dagur Gautason og Gunnar Steinn Jónsson voru einnig flottir fyrir sitt lið í kvöld.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik vantaði mikið upp á hjá Gróttu. Varnarleikurinn var ábótavant og markvarslan líka. Það vantaði að fá aðeins meiri hreyfingu í sóknarleikinn hjá þeim og voru klaufavillur og tapaðir boltar of margir. Stjörnunni vantaði eitthvað örlítið upp á spilamennskuna í fyrri hálfleiknum en misstu hana alltof mikið niður í þeim síðari. 

Það var eins og þeir hafi haldið að þetta hafi verið búið í hálfleik því Gróttuliðið kom þeim virkilega mikið á óvart strax í upphafi síðari hálfleiks. Þeir misstu forystuna og fengu á sig 9-2 áhlaup eftir aðeins 12 mínútur. Þeir áttu erfitt uppdráttar það sem eftir var þó svo að þeir hafi náð að minnka muninn aftur.

Hvað gerist næst?

Grótta leikur sinn þriðja heimaleik í röð í næstu viku þegar þeir fá lið HK í heimsókn í 8. umferð deildarinnar. Leikurinn fer fram á sunnudaginn nk. klukkan 18:00. Stjarnan á einnig heimaleik í næstu umferð en hann fer fram á þriðjudaginn eftir tæpa viku. 

Þar mæta þeir FH klukkan 19:30 og verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Þeir áttu sigurinn þannig séð skilið í dag

Patrekur sagði Gróttu hafa átt sigurinn skilið í kvöld.Vísir/Sigurjón

„Mér líður eðlilega ekki vel. Við byrjuðum leikinn vel, við komum vel inn í hann og leystum þetta 7-6 spil Gróttu vel. Staðan 12-6 fyrir okkur. Í hálfleik erum við svo yfir 18-15. Við vorum reyndar frekar lélegir að hlaupa til baka. Það sem gerðist í seinni hálfleik þarf ég að kíkja betur á. Ég er svekktur með það. Við lendum undir og gerum aulamistök. Klikkum á skotum, það kemur panik í liðið og við förum að flýta okkur. Auðvitað er ég svekktur.“ Sagði Patrekur eftir fyrsta tap liðsins á móti Gróttu.

„Þeir fá ágætis markvörslu í seinni hálfleik og við erum með of mikið af sendingarfeilum. Grótta gerði vel líka. Þeir börðust eins og ljón og það eru pínu vonbrigði hvernig við komum inn í seinni hálfleikinn. Við höfum yfirleitt verið grimmir í flestum leikjum þegar við höfum komið út úr hálfleikshléinu. En það kemur eitthvað panik yfir leikmennina hjá mér og það er bara eitthvað sem við þurfum að fara yfir. Það er fúlt að tapa en Grótta var grimmari en við í seinni hálfleik. Við áttum því miður ekki nægilega góðan leik.“

Grótta var yfir með þremur mörkum í hálfleik, 18-15 en missa forystuna strax í upphafi síðari hálfleiks og ná sér aldrei á strik aftur eftir það.

„Deildin er mjög sterk. Við gerum jafntefli hérna í fyrra og það eru mörg lið sem hafa lent í vandræðum með Gróttu. Þetta eru flottir strákar sem berjast eins og ljón. Þeir áttu sigurinn þannig séð skilið í dag.“

„Ég horfi bara á mína menn, við hefðum getað spilað töluvert betur í seinni hálfleik. En ég verð líka að fá að hrósa liðinu mínu, við erum búnir að spila með töluvert breytt lið frá upphafi móts og við höfum gert það vel. En fengum svolítið á kjaftinn í seinni hálfleik og núna þarf bara að afgreiða það og mæta klárir í leikinn á móti FH á þriðjudaginn.“


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.