Handbolti

„Fæ leyfi til þess sem ég er góður í“

Sindri Sverrisson skrifar
Lífið brosir við Ómari Inga Magnússyni sem hefur í vikunni verið við æfingar með landsliðinu hér á landi.
Lífið brosir við Ómari Inga Magnússyni sem hefur í vikunni verið við æfingar með landsliðinu hér á landi. vísir/vilhelm

„Maður vaknar ekki allt í einu einn morgun og ætlar að verða bestur. Þetta tekur tíma og er bara vinna,“ segir Ómar Ingi Magnússon sem farið hefur á kostum í þýsku deildinni í handbolta, þeirri sterkustu í heimi.

Lífið hefur svo sannarlega leikið við Ómar Inga á handboltavellinum í vetur, svipað og í fyrra þegar hann varð markakóngur þýsku deildarinnar.

Ómar skoraði sigurmark Magdeburg gegn Erlangen í síðasta leik og er einn þriggja markahæstu manna þýsku deildarinnar með 56 mörk eftir níu leiki. Magdeburg hefur unnið alla leikina og er á toppi deildarinnar.

„Það hefur gengið vel. Mér finnst ég bara spila eins og ég á að vera að spila,“ segir Ómar Ingi, hæglátur að vanda. Hann er þessa dagana við æfingar með íslenska landsliðinu hér á landi og segir það gott að geta komist heim í stutta pásu frá leikjum.

„Það er nóg af leikjum og hörkuálag. Við erum að vinna eins og er, þannig að ég er sáttur.“

Klippa: Ómar Ingi um velgengnina miklu í Þýskalandi

Aðspurður hvers vegna honum gangi svona vel núna, og hvort að leikstíll Magdeburg henti honum svona vel, segir Ómar:

„Ég held að leikstíllinn sé svolítið þannig. Ég fæ að spila eins og ég vil spila. Ég fæ leyfi til þess sem ég er góður í og er sáttur með það.

Það telur allt. Maður er alltaf að leggja inn í bankann. Maður hefur gert það frá unga aldri. Maður vaknar ekki allt í einu einn morgun og ætlar að verða bestur. Þetta tekur tíma og er bara vinna.“

Margt að læra frá síðasta tímabili

Þó að Magdeburg sé efst í þýsku deildinni, hafi unnið Evrópudeildina í vor og sé farið á minna á gamla tíma þegar liðið vann Meistaradeildina undir stjórn Alfreðs Gíslasonar árið 2002, segir Ómar utanaðkomandi pressu ekki mikla.

„Nei, alls ekki. Við erum með okkar væntingar og við viljum standa undir þeim. Við viljum vinna þær keppnir sem við erum að spila í, spila góðan handbolta, og höfum margt að læra frá síðasta tímabili. Þá vorum við að tapa óþarfa leikjum – gegn liðum sem við eigum ekki að tapa á móti. Ef að við leiðréttum þau mistök á þessu tímabili þá komumst við langt.“


Tengdar fréttir

Ómar hélt sigur­göngu Mag­deburg gangandi | Leikur Melsun­gen flautaður af

Fjórir leikir í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta fóru fram fyrr í dag og það voru Íslendingar í eldlínunni í þeim öllum. Magdeburg hefur nú unnið alla níu leiki sína, en leikur Hamburg og Melsungen var flautaður af um miðjan fyrri hálfleik eftir að stuðningsmaður slasaðist í stúkunni.

„Aðeins of ungur til að vera kominn í þetta tjill“

Aron Pálmarsson er orðinn heill heilsu eftir meiðsli sem hann varð fyrir í haust. Hann er ánægður með skrefið sem hann tók frá Spáni til Danmerkur í sumar og segir áhugann á handbolta mikið meiri í Danmörku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.