Handbolti

Guðmundur Guðmundsson: „Það er alltaf pressa að þjálfa íslenska landsliðið“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta. Mynd/Skjáskot

Íslenska landsliðið í handbolta kom saman til æfinga í dag sem er liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir Evrópumótið sem hefst í byrjun janúar á næsta ári þar sem menn kalla eftir árangri eftir dapurt gengi á síðasta heimsmeistaramóti.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins, hefur verið með liðið frá 2018, en þegar hann tók við var markmiðið að koma Íslandi í hóp átta bestu handboltaþjóða heims.

„Liðið sem slíkt í dag finnst mér bara vera á réttri leið. Við erum að verða betri varnarlega séð og þó að okkar staða eða sæti á síðasta HM hafi ekki verið gott, þá sé ég ákveðnar framfarir hjá liðinu engu að síður.“

Hvort að Guðmundur finni fyrir pressu varðandi það að ná þessu markmiði um að komast í hóp átta bestu handboltaþjóða heims segir hann að það sé alltaf pressa á mönnum í hans stöðu.

„Ég myndi segja sem svo að á þessu móti viljum við taka skref upp á við, hvort að það er pressa, það er alltaf pressa að þjálfa íslenska landsliðið og það er pressa að vera leikmaður í íslenska landsliðinu. Þannig er það og þannig verður það.“

Íslenska landsliðið olli miklum vonbrigðum á síðasta heimsmeistaramóti þar sem liðið hafnaði í 20. sæti. En finnst Guðmundi kominn tími á að íslenska liðið verði meðal átta bestu á Evrópumótinu í janúar?

„Það er hins vegar alltaf þannig hjá okkur, og kannski meira hjá okkur en hjá mörgum öðrum landsliðum heimsins, að það auðvitað má ekkert mikið út af bregða. Það er alltaf með þessu blessuðu meiðsl að við erum náttúrulega svolítið háðir því að við höfum okkar lykilmenn heila og að þeir geti beitt sér og verið með.“

„Það var ekki þannig á HM í fyrra. Því miður þá vantaði bara mjög marga af okkar bestu leikmönnum og þá breytist myndin mjög fljótt. Auðvitað er ég alltaf sem þjálfari að vona að við séum með okkar sterkasta lið þegar út í stórkeppnina er komið.“

Innslagið má sjá í heild sínni í spilaranum hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.