Sport

Íslendingar skiluðu Michigan skólanum sama titli með fjögurra ára millibili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Baldvin Þór Magnússon er að gera flotta hluti með Eastern Michigan háskólanum.
Baldvin Þór Magnússon er að gera flotta hluti með Eastern Michigan háskólanum. Instagram/@vinnym_99

Íslenski millivegahlauparinn Baldvin Þór Magnússon varð um helgina MAC svæðismeistari í átta kílómetra víðavangshlaupi.

Baldvin Þór kom í mark á 24:05,7 mínútum og er þetta hans fyrsti svæðismeistaratitill í þessari grein.

Það eru líka fjögur ár síðan að Eastern Michigan háskólinn átti svæðismeistara í víðavangshlaupi og þá var það einmitt Íslendingurinn Hlynur Andrésson sem fagnaði þá sigri.

„Ég vissi að þetta myndi vera á milli mín og nokkra aðra fyrir sigurinn. Hlaupið gekk mjög vel, leið bara vel og það var geðveik stemning af því að þetta var á heimavelli,“ hefur heimasíða Frjálsíþróttsambands Íslands eftir Baldvini.

Baldvin kom í mark tæpum þremur sekúndum á undan Josh Park frá Ohio skólanum en þriðji var síðan Toby Gualter úr Eastern Michigan háskólanum.

Karlalið Eastern Michigan varð einnig svæðismeistarar þriðja árið í röð. Næst á dagskrá hjá Baldvini er Regionals mótið eftir tvær vikur.

Baldvin Þór á Íslandsmetið í bæði 1500 metra og 3000 metra hlaupi og átti metið líka um tíma í 5000 metra hlaupi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×