Körfubolti

Martin og félagar með naumt tap í Euro Cup

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin og félagar þurftu að sætta sig við tap með minnsta mun í kvöld.
Martin og félagar þurftu að sætta sig við tap með minnsta mun í kvöld. Borja B. Hojas/Getty Images for Hereda San Pablo Burgos

Martin Hermannsson og félagar hans í spænska liðinu Valencia töpuðu með minnsta mun er liðið heimsótti Buducnost frá Svartfjallalandi í annarri umferð Euro Cup í körfubolta, 71-70.

Mikið jafnræði var með liðunum frá upphafi, en að loknum fyrsta leikhluta var munurinn aðeins eitt stig, 18-17, heimamönnum í vil.

Martin og félagar mættu grimmir til leiks í öðrum leikhluta og náðu þar mest tíu stiga forskoti, en staðan var 32-38 þegar flautað var til hálfleiks.

Ekki gekk mikið betur að skilja liðin að í þriðja leikhluta, en Martin og félagar voru þó alltaf skrefi á undan. Þegar komið var að lokaleikhlutanum var staðan 52-59, Valencia í vil.

Fjórði og seinasti leikhluti bauð upp á mikla spennu. Heimamenn náðu að jafna leikinn snemma, en Martin og félagar náðu forystunni á ný. Forskotið varð þó aldrei meira en þrjú stig og það voru heimamenn sem skoruðu seinustu stig leiksins og tryggðu sér nauman sigur, 71-70.

Martin skoraði fimm stig fyrir Valencia, og gaf auk þess tvær stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×