Körfubolti

Helena að glíma við undar­leg meiðsli | Ó­víst hvort hún nái Evrópu­leiknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Helena Sverrisdóttir er að glíma við meiðsli þessa dagana.
Helena Sverrisdóttir er að glíma við meiðsli þessa dagana. Vísir/Vilhelm

Helena Sverrisdóttir, leikmaður Hauka og íslenska landsliðsins í körfubolta, er að glíma við undarleg meiðsli þessa dagana. Óvíst er hvort hún verði klár fyrir Evrópuleik Hauka í vikunni.

Helena spilaði aðeins átta mínútur í öruggum 34 stiga sigri Hauka á Grindavík í Subway-deild kvenna í körfubolta í gærkvöld. Það kom virkilega á óvart þar sem Helena er sannkallaður máttarstólpi í liðinu og sér um að stýra öllu á báðum endum vallarins. 

Í viðtali við mbl.is viðurkenndi Helena að hún væri að glíma við meiðsli og það væri í raun alls óvíst hvenær hún myndi ná sér að fullu.

„Ég fór í myndatöku fyrir þremur vikum og þá kom í ljós að ég er með marinn liðþófa, bólgur og vökva inn á hnénu,“ sagði Helena í samtali við mbl.is fyrr í dag.

Í viðtalinu kemur einnig fram að ferðalag Hauka til Frakklands í Evrópubikarnum hafi eflaust ekki hjálpað til. Ofan á það steig hún illa niður í leiknum gegn Grindavík og fór í kjölfarið meidd af velli.

„Ég fann fyrir skrítnum verk. Ég er ekkert skárri í dag en í gær og við erum bara að skoða núna hvað er hægt að gera fyrr mig,“ sagði hún einnig.

Helena telur ekki að neitt sé slitið í hnénu en segist ekki vita hver næstu skref séu. Henni langar auðvitað að spila Evrópuleik Hauka á fimmtudaginn kemur en „þetta gerðist bara í gærkvöldi og við þurfum að bíða aðeins og sjá hvernig þetta þróast,“ sagði Helena að endingu í spjalli sínu við mbl.is.

Haukar hafa leikið fjóra leiki í Subway-deild kvenna það sem af er vetri, liðið hefur unnið þrjá og tapað einum. Er það í 4. sæti Subway-deildar kvenna en með leik til góða á önnur lið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.