Sport

Maddison hetja Leicester í sigri á Brentford

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Brendan Rogers er knattspyrnustjóri Leicester
Brendan Rogers er knattspyrnustjóri Leicester EPA-EFE/PETER POWELL .

Leicester mætti í heimsókn til Brentford í dag í ensku úrvalsdeildinni. Eftir jafnan leik þá tókst Leicester að knýja fram sigur í lokin með marki frá James Maddison. Flott úrslit fyrir Leicester, sem er óðum að komast á beinu brautina í deildinni.

Það voru leikmenn Leicester sem byrjuðu betur og náðu að koma inn marki á 13. mínútu. Þar var á ferðinni Yuri Tielemans og markið var af dýrari gerðinni. James Maddison átti þá fyrirgjöf frá hægri sem var skölluð frá. Tielemans mætti boltanum af 30 metra færi og gjörsamlega lúðraði boltanum upp í samskeytin. Frábært mark og Leicester komið yfir.

Brentford jafnaði leikinn á 60. mínútu. Mathias Jensen tók þá hornspyrnu og nafni hans, Mathias Jørgensen skoraði með góðum skalla.

Það var svo James Maddison sem skoraði sigurmarkið á 73. mínútu. Tielemans átti þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Brentford þar sem Maddison og Patson Daka voru einir gegn markverðinum. Daka renndi honum til hliðar og Maddison skoraði í autt markið. Brentford sótti svo án afláts en tókst ekki að jafna. Mikilvægur sigur hjá Leicester sem er í níunda sæti deildarinnar með fjórtán stig en Brentford er í því tólfta með tólf stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.