Körfubolti

Steph Curry byrjaði NBA tímabilið á þrennu í sigri á Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry er hér kominn framhjá Lakers mönnunum Anthony Davis og Kent Bazemore í sigri Golden State Warriors á Los Angeles Lakers í nótt.
Stephen Curry er hér kominn framhjá Lakers mönnunum Anthony Davis og Kent Bazemore í sigri Golden State Warriors á Los Angeles Lakers í nótt. Getty/Kevork Djansezian

Golden State Warriors og Milwaukee Bucks fögnuðu sigri þegar tveir fyrstu leikirnir á nýju NBA-tímabili fór fram í nótt. Meistaraefnin í Brooklyn Nets og Los Angeles Lakers þurftu á móti að sætta sig við tap.

Steph Curry var með þrennu í 121-114 sigri Golden State Warriors á Los Angeles Lakers en bakvörðurinn var með 21 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Curry hittir reyndar aðeins úr 2 af 8 þriggja stiga skotum sínum en það kom ekki að sök.

Warriors liðið skoraði 38 stig í lokaleikhlutanum sem liðið vann með níu stigum en Lakers var sex stigum yfir í hálfleik, 59-53. Jordan Poole var næststigahæstur hjá Warriors með 20 stig og þeir Nemanja Bjelica og Damion Lee komu með fimmtán stig inn af bekknum.

Hjá Lakers var LeBron James með 34 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar og Antonio Davis skoraði 33 stig og tók 11 fráköst. Russell Westbrook var hins vegar aðeins með 8 stig í fyrsta deildarleiknum með Lakers en hann hitti bara úr 4 af 13 skotum sínum. Carmelo Anthony kom með 9 stig inn af bekknum.

Giannis Antetokounmpo og meistararnir í Milwaukee Bucks unnu öruggan 127-104 sigur á Brooklyn Nets í fyrsta leik sínum í titilvörninni. Antetokounmpo var mjög flottur með 32 stig, 14 fráköst og 7 stoðsendingar.

Khris Middleton og Pat Connaughton voru báðir með 20 stig í leiknum en það kom ekki að sök að Jrue Holiday meiddist á hæl og spilaði ekki í seinni hálfleik.

Kevin Durant var atkvæðamestur hjá Nets með 32 stig og 11 fráköst en Patty Mills skoraði 21 stig og hitti úr öllum sjö þriggja stiga skotum sínum. James Harden var með 20 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.