Körfubolti

Martin og félagar aftur á sigurbraut í spænska körfuboltanum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Martin Hermannsson átti góðan leik í liði Valencia í kvöld.
Martin Hermannsson átti góðan leik í liði Valencia í kvöld. Mike Kireev/NurPhoto via Getty Images

Martin Hermannsson og félagar hans í Valencia unnu í kvöld góðan fjögurra stiga sigur, 69-65, er liðið heimsótti San Pablo Burgos í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks, en Martin og félagar leiddu þó stærstan hluta fyrsta leikhluta. Að honum loknum höfðu liðsmenn Valencia fjögurra stiga forskot, 23-19.

Gestirnir í Valencia juku forskot sitt lítillega í öðrum leikhluta, en þeir náðu mest 11 stiga forystu fyrir hálfleik. Þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 46-38, Valencia í vil.

Heimamenn í San Pablo Burgos nættu grimmir til leiks eftir hálfleikinn og byrjuðu þriðja leikhluta á 10-3 áhlaupi. Martin og félagar náðu þó að rétta sig af og fóru með þriggja stiga forskot inn í lokaleikhlutann, 57-54.

Liðin héldust í hendur allt til loka, en það voru þó Martin og félagar sem báru sigurorð af heimamönnum,  69-64.

Martin var næst stigahæsti leikmaður vallarins með 14 stig, en hann tók einnig tvö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Valencia er nú með sex stig eftir jafn marga leiki, líkt og sjö önnur lið í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×