Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Stjarnan 17-18 | Stjarnan sótti sinn fyrsta sigur

Dagur Lárusson skrifar
Stjarnan - ÍBV Olís deild kvenna vetur 2021 handbolti HSÍ
Stjarnan - ÍBV Olís deild kvenna vetur 2021 handbolti HSÍ

Stjarnan fékk sín fyrstu stig í Olís-deild kvenna í handbolta í dag eftir eins marks sigur á Aftureldingu í Mosfellsbænum, 18-17.

Bæði lið voru án stiga fyrir leikinn í dag en það voru gestirnir í Stjörnunni sem byrjuðu leikinn mun betur og þegar um 13 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleiknum var staðan orðin 2-7 en þá tók Guðmundur, þjálfari Aftureldingar, leikhlé.

Eftir það leikhlé fóru stelpurnar í Aftureldingu að taka við sér og minnkuðu forskot Stjörnunnar smátt og smátt eftir því sem leið á hálfleikinn. Það var síðan á lokamínútu fyrri hálfleiksins þar sem Afturelding tók forystuna í leiknum í fyrsta sinn eftir frábæran kafla þar sem Eva Dís varði og varði í markinu og Ólöf Marín hrökk í gang í sóknarleiknum. Staðan í hálfleik 11-10.

Það má segja að seinni hálfleikurinn hafi verið hálfleikur frábærs varnaleiks og það aðallega hjá Stjörnunni. Stelpurnar í Stjörnunni komu með mikla stemmingu í seinni hálfleikinn og fyrstu tíu mínútur hálfleiksins skoraði Afturelding aðeins tvö mörk og aðeins eitt úr opnum leik.

Bæði lið áttu þó heldur erfitt uppdráttar í sóknarleiknum en Stjörnunni gekk þó aðeins betur og vann að lokum sigur, 17-18.

Katrín Helga Davíðsdóttir var markahæst í leiknum með sex mörk í liði Aftureldingar en markahæst í liði Stjörnunnar var Eva Björk Davíðsdóttir með fimm mörk.

Af hverju vann Stjarnan?

Varnaleikur Stjörnunnar, þá sérstaklega í seinni hálfleiknum, var hreint út sagt magnaður. Rosalega stemming í öllu liðinu og greinilegt að Rakel Dögg lagði mikla áherslu á baráttu í varnarleiknum í hálfleiknum. Helena Örvarsdóttir leiddi varnaleik Stjörnunnar eins og drottning í ríki sínu.

Hverjar stóðu upp úr?

Þar sem þetta var leikur frábærs varnaleiks og Stjarnan spilaði aðeins öflugri varnaleik þá ber helst að nefna þeirra besta varnarmann í leiknum og það var án efa Helena Örvarsdóttir. Hún kom almennilega inn í leikinn í seinni hálfleiknum og fór fyrir liði sínu í varnarleiknum auk þess sem hún skoraði nokkur mörk sjálf.

Hvað fór illa?

Sóknarleikurinn var ekki nægilega góður hjá báðum liðum. Afturelding skoraði ekki nema sex mörk í seinni hálfleiknum og Stjarnan skoraði átta. Spurning hvort það sé áhyggjuefni fyrir þjálfara liðanna eða hvort að leikurinn hafi einfaldlega spilast þannig.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Stjörnunnar verður gegn Val næsta fimmtudagskvöld á meðan Afturelding fer í heimsókn til Hauka næsta laugardag.

Guðmundur Helgi: Varnarleikurinn góður en sóknarleikurinn slæmur

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Aftureldingar, segir að sóknarleikur liðsins hafi ekki verið góður.vísir/anton

,,Það er auðvitað bara mjög sárt að tapa, mér fannst við eiga að taka þessi tvö stig, en sóknarleikurinn var bara ekki alveg nógu góður í dag,” byrjaði Guðmundur Helgi, þjálfari Aftureldingar, á að segja.

Aðspurður út í sóknarleik síns síns sagði Guðmundur að það vantaði meiri ákveðni.

,,Það vantaði meiri ákveðni í okkar sóknarleik og spila boltanum hraðar. En svo hjálpaði það auðvitað ekki til að hún Darija varði eins og brjálæðingur í markinu.

Guðmundur var hins vegar ánægður með varnarleikinn í kvöld.

,,Ekki hægt annað heldur en að vera ánægður með varnarleikinn okkar. Ég hefði kannski verið til í betri hraðabreytingar en markvarslan síðan líka mjög góð í dag,” endaði Guðmundur á að segja.

Rakel Dögg: Sátt með fyrstu stigin

Rakel Dögg Bragadóttir, þjálfari Stjörnunnar, var eðlilega sátt með fyrstu stig liðsins.Vísir/Hulda Margrét

,,Ég er mjög sátt með sigurinn og fá fyrstu tvö stigin á töfluna. Svo er ég mjög sátt með rosalega margt í leiknum en auðvitað var þetta kannski fullt tæpur sigur,” byrjaði Rakel Dögg, þjálfari Stjörnunnar, á að segja.

Líkt og Guðmundur var Rakel mjög ánægð með varnarleik síns liðs í kvöld og þá sérstaklega í seinni hálfleiknum.

,,Varnarleikurinn var algjörlega frábær, fyrir utan kannski nokkra mínútur þarna í fyrri hálfleiknum, og svo var Darija frábær fyrir aftan líka. Sóknarleikurinn var rosalega góður í fyrri hálfleik og hann var einnig góður á köflum í seinni hálfleiknum, en við klikkuðum á rosalega mikið af dauðafærum eins og einn á móti markmanni, auðvitað var hún að verja vel, en mér finnst við eiga að geta nýtt þessi færi sem við vorum að fá.”

Afturelding skoraði ekki nema sex mörk í seinni hálfleiknum og fimm af þeim úr opnum leik en Rakel Dögg talaði sérstaklega um varnarleikinn í hálfleiknum.

,,Já við töluðum sérstaklega um það í hálfleiknum að við vorum að leka svolítið hjá bakvörðunum okkar í fyrri hálfleiknum og við vildum stöðva það. Við vildum fá meiri þéttleika og meiri færslur og við fengum það svo sannarlega,”endaði Rakel Dögg á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.