Körfubolti

LeBron James horfði á Squid Game en var ekki ánægður með endinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fólk í Squid Game búningnum og LeBron James í leik með Los Angeles Lakers liðinu.
Fólk í Squid Game búningnum og LeBron James í leik með Los Angeles Lakers liðinu. Samsett/AP

Það eru allir að horfa á kóresku sjónvarpsseríuna Squid Game og körfuboltastjarnan LeBron James gat ekki beðið eftir því að tala um þáttinn eftir blaðamannafundinn sinn í gær.

Squid Game er vinsælasta sjónvarpsserían í sögu Netflix með yfir 111 milljón áhorf á streymisveitunni á fyrstu 28 dögunum eftir að hún datt inn.

James var svo spenntur yfir þáttunum að hann byrjaði að tala um hann við Anthony Davis inn í blaðamannaherberginu og það samtal fór ekkert framhjá blaðamönnunum.

Bleacher Report birti myndband af stórstjörnum Los Angeles Lakers ræða þennan heitasta sjónvarpsþátt heimsins í dag.

„Já, ég er búinn að horfa, ert þú búinn með þá? Þú horfðir á þá? Ertu búinn með þá alla,“ spurði LeBron James liðsfélaga sinn Anthony Davis og spenningurinn leyndi sér ekki. Davis var þarna mættur í fjölmiðlaherbergið til að halda sinn blaðamannafund.

„Já en ég var ekki hrifinn af endinum samt. Nei, ég veit að þeir voru að fara að byrja með næstu seríu en bara, farðu í andskotans flugið, farðu að hitta dóttur þína. Hvað ertu að gera,“ sagði LeBron.

LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers þurfa að bæta upp fyrir vonbrigði síðasta tímabils þar sem þeir James og Davis voru mikið meiddir. Nú hafa þeir safnað að sér eldri stórstjörnum og það verður fróðlegt að sjá hvort elliheimilið sé nógu létt á fæti til að fara alla leið í NBA deildinni í vetur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×