Körfubolti

Keflavík og Valur byrja tímabilið á sigrum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ameryst Alston var mögnuð í kvöld.
Ameryst Alston var mögnuð í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Íslandsmeistarar Vals og Keflavík byrja tímabilið í Subway-deild kvenna á nokkuð öruggum sigrum. Valur vann stórsigur á Grindavík, 94-69, á meðan Keflavík vann Skallagrím, 80-66.

Valur heimsótti Grindavík og átti ekki í miklum vandræðum. Frábær frammistaða í þriðja leikhluta lagði grunninn að 25 stiga sigri Íslandsmeistaranna, lokatölur 94-69.

Ameryst Alston fór hamförum í liði Vals en hún endaði með þrefalda tvennu. Skoraði hún 32 stig, tók 15 fráköst ásamt því að gefa 13 stoðsendingar. Þar á eftir kom Dagbjört Dögg Karlsdóttir með 23 stig ásamt því að taka sjö fráköst. Hjá Grindavík var Robbi Ryan stigahæst með 24 stig.

Í Keflavík var Skallagrímur í heimsókn og þar var þriðji leikhluti einnig sá sem gerði endanlega út um leikinn. Staðan hafði verið 42-35 í hálfleik en Keflavík vann þriðja leikhluta með tíu stiga mun og fór langleiðina með að tryggja sigur kvöldsins, lokatölur 80-66.

Anna Ingunn Svansdóttir var stigahæst í liði Keflavíkur með 21 stig ásamt því að taka sex fráköst og gefa sex stoðsendingar. Eygló Kristín Óskarsdóttir kom þar á eftir með 16 stig ásamt því að gefa sjö stoðsendingar.

Nikola Nedoroščíková var stigahæst í liði Skallagríms með 22 stig. Þar á eftir kom Mammusu Secka með 15 stig en hún tók einnig 14 fráköst.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.