Sport

Fury í algjöru kynlífsbindindi fyrir bardagann gegn Wilder

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyson Fury mætir Deontay Wilder í þriðja sinn á laugardaginn.
Tyson Fury mætir Deontay Wilder í þriðja sinn á laugardaginn. getty/Mikey Williams

Enski boxarinn Tyson Fury tekur ekki neina áhættu fyrir þriðja bardaga sinn gegn Deontay Wilder og neitar sér um lífsins lystisemdir, þar á meðal kynlíf. 

Fury og Wilder mætast í Las Vegas á laugardaginn en þetta er þriðji bardagi þeirra á jafn mörgum árum. Þeir gerðu umdeilt jafntefli í desember 2018 en Fury vill meina að hann hafi unnið þann bardaga. Fury sigraði Wilder svo örugglega í febrúar á síðasta ári. Það er eina tap Wilders á ferlinum.

Fury er enn ósigraður á ferlinum og ætlar að halda því þannig. Þess vegna tekur hann enga áhættu í aðdraganda bardagans. Hann borðar hollt, heldur sig frá áfengi og kynlífi.

„Ekkert kynlíf í æfingabúðunum,“ sagði Fury. Eiginkona hans, Paris, er heima á Englandi eftir að hafa fætt sjötta barn þeirra hjóna.

Fury hefur greint frá því að hann hafi fróað sér sjö sinnum á dag í aðdraganda annars bardagans gegn Wilder. Hann lætur sjálfsfróunina þó alveg vera fyrir bardagann á laugardaginn.

„Ég man ekki einu sinni hvenær ég gerði það síðast. Ég er með rennt upp. Ég vil byrgja alla orkuna inni og vaða svo af öllu afli í andstæðinginn,“ sagði Englendingurinn.

Fury liggur ekki á skoðunum sínum og hefur gert sitt til að auglýsa bardagann á laugardaginn. Á meðan hefur Wilder varla sagt orð opinberlega. Fury segir að það ætti að sekta Wilder fyrir þögnina og hann ætli að refsa honum fyrir hana í hringnum á laugardaginn.

MMAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.