Skoðun

Alltaf til staðar

Ragnar Þór Pétursson og Anna María Gunnarsdóttir skrifa

Pistill í tilefni af alþjóðadegi kennara

„Starf [kennara] er að vekja alt, sem í barnahug er bundið, og leiða það í spor þau, er liggja börnum til gleði og farsældar og þjóð allri til þrifa.“

Aðfararorð þessa pistils birtust í Skólablaðinu árið 1907. Höfundur þeirra hefur líklega verið Helgi Valtýsson. Hér birtist furðu nútímalegt viðhorf til hlutverks kennara. Þeir skulu draga fram hæfileika barna svo þau geti orðið sjálfum sér og öðrum til gagns og gleði.

Hverjum tíma fylgja sínar áskoranir. Þó má hlutverk kennarans nánast kallast sígilt og allra tíma. Viðfangsefni koma og fara; umhverfið breytist – en kjarni góðrar kennslu og undirstaða góðs náms er á hverjum tíma sú að draga fram þá þætti í fari barna sem geri þeim kleift að lifa farsælu og gleðiríku lífi.

Fimmti október er alþjóðadagur kennara um heim allan. Að þessu sinni er yfirskriftin „Alltaf til staðar.“ Er þar auðvitað verið að vísa til þess að kennarar standi sína vakt þótt á móti blási. Þeir eru ekki síður verndarar barna en fræðarar.

Tilvísunin er þó víðtækari.

Að vera til staðar merkir einnig að kennarar láta samfélagið sig varða. Þeir búa yfir reynslu og þekkingu og gera kröfur á samfélag sitt og stjórnvöld.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur gert erfiða stöðu erfiðari. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið mjög ólík á heimsvísu. Sótt er að lýðræði og vísindum. Kennarastarfið er, nánast á heimsvísu, illa launað álagsstarf. Sótt er að ráðningarsambandinu og réttindum launafólks og stórfyrirtæki sem selja vilja vörur á markaði hafa lagt undir sig menntakerfi sumra fátækustu landa heims í nafni framfara.

Til að menntun barna geti orðið þeim til gleði og farsældar þarf þjóðlífið að þrífast vel. Nauðsynlegt er að heilbrigt, mannlegt og gott samfélag taki við að námi loknu. Slíkt samfélag þarf að byggja á siðferðilegum og félagslegum grunngildum.

Við óskum kennurum til hamingju með daginn og samfélaginu til hamingju með kennara!

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður KÍAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.