Körfubolti

Brynjar Karl aftur heim til Leiknis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefán Páll Magnússon, framkvæmdastjóri Leiknis, og Brynjar Karl Sigurðsson.
Stefán Páll Magnússon, framkvæmdastjóri Leiknis, og Brynjar Karl Sigurðsson. leiknir

Brynjar Karl Sigurðsson er nýr formaður körfuknattleiksdeildar Leiknis Reykjavíkur. Hann var kosinn formaður á fundi körfuknattleiksdeildarinnar á dögunum.

Leiknir er að endurvekja körfuknattleiksdeild félagsins og Brynjar á að leiða það starf.

„Við hjá Leikni erum mjög spennt að fá Brynjar Karl í hópinn og vinna með honum að því að veita börnum Efra-Breiðholts aðgang að körfuboltaíþróttinni,“ segir Stefán Páll Magnússon, framkvæmdastjóri Leiknis, í frétt á heimasíðu félagsins. 

„Leiknir hefur sett stefnuna á að verða hverfisfélag Efra-Breiðholts og er að fjölga deildum hjá félaginu. Körfuboltadeildin hefur nú verið endurvakin og verður öflug viðbót við íþróttaframboðið hjá félaginu. Brynjar Karl hefur unnið frábært starf fyrir körfuboltaíþróttina hvar sem hann hefur komið. Hann hefur lagt áherslu á að valdaefla stúlkur og unga Íslendinga af erlendum uppruna. Síðarnefndi hópurinn er stór í okkar hverfi og viljum við læra af reynslu Brynjars Karls.“

Sjálfur segist Brynjar vera spenntur að snúa aftur heim í Leikni. „Ég er fæddur og uppalinn í Fellunum og íþróttaiðkun mín hófst hjá Leikni. Spennan og tilhlökkunin er mikil því í mörg ár hef ég rennt hýru augu til þess að koma heim og til þess að starfa með unga fólkinu í Efra-Breiðholti. Ég hef fylgst af aðdáun með þeim mikla anda og dugnaði sem ríkir hjá félaginu.“

Brynjar hefur verið mikið milli tannanna á fólki undanfarin ár vegna þjálfunaraðferða sinna. Hann þjálfaði hóp stúlkna hjá Stjörnunni og ÍR en hætti á báðum stöðum. Hluti stúlknanna fylgdi honum svo til Aþenu, félags sem hann stofnaði. Aþena sendir lið til leiks í 1. deild kvenna. Fyrsti leikur Aþenu er gegn Vestra á morgun.

Fylgst var með Brynjari og stúlkunum sem hann þjálfaði í heimildamyndinni Hækkum rána.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.