Körfubolti

Nýir erlendir leikmenn KR-inga þekkja vel til í íslensku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adama Darboe og Shawn Glover stilltu sér upp á mynd í KR-húsinu.
Adama Darboe og Shawn Glover stilltu sér upp á mynd í KR-húsinu. KR

KR-ingar staðfestu í gærkvöldi komu tveggja erlendra leikmanna til liðsins og báðir hafa þeir spilað áður í úrvalsdeildinni á Íslandi.

Það er þó mjög mislangt síðan þeir voru hér í deildinni. Körfuknattleiksdeild KR hefur gengið frá samningum við þá Danann Adama Darboe og hinn bandaríska Shawn Glover. Sagt er frá þessu á heimasíðu félagsins.

Adama Darboe hefur spilað með danska stórliðinu Bakken Bears í fimm ár en hann er reynslumikill leikmaður sem getur spilað nokkrar stöður.

Darboe lék með Grindvíkingum í tvö tímabil frá 2006 til 2008. Hann var með 10,9 stig og 5,8 stoðsendingar að meðaltali í 44 deildarleikjum þessi tvö tímabil. Í fimmtán leikjum í úrslitakeppni þessi tvö ár var hann með 17,2 stig og 7,6 stoðsendingar í leik eða mun hærri tölur en í deildarleikjunum.

Það er miklu styttra síðan að Shawn Glover spilaði hér á landi en hann lék með Tindastól á síðustu leiktíð. Shawn er 201 sentímetra framherji og á síðasta tímabili skoraði hann að meðaltali 26,2 stig og tók 7,5 fráköst.

Glover kláraði þó ekki tímabilið með Stólunum því þeir urðu að láta hann fara þegar hann vildi ekki festa sig hjá liðinu. Hann var með klásúlu í samningi sínum sem gaf honum leyfi til að taka tilboði frá erlendu félagi.

Glover spilaði einn leik á móti KR og var þá með 30 stig á 29 mínútur þar sem hann hitti úr 67 prósent skota sinna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.