Handbolti

Ómar dró vagninn fyrir Magdeburg | Ýmir hafði betur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon heldur áfram að skora fyrir Magdeburg.
Ómar Ingi Magnússon heldur áfram að skora fyrir Magdeburg. Getty/Uwe Anspach

Fimm leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag og það voru Íslendingar í eldlínunni í fjórum þeirra. Magdeburg er enn með fullt hús stiga eftir fimm leiki, en Ómar Ingi Magnússin var markahæsti maður liðsins í tveggja marka sigri gegn Leipzig, 30-28.

Magdeburg byrjaði leikinn gegn Leipzig af miklum krafti og náðu mest sex marka forskoti í fyrri hálfleik. Þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 16-11, Magdeburg í vil.

Leikmenn Leipzig mættu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Þeir jöfnuðu metin í stöðunni 24-24 og náðu svo tveggja marka forskoti í kjölfarið á því.

Mikil spenna var undir lokin, en Magdeburg skoraði seinustu þrjú mörk leiksins og fögnuðu því góðum tveggja marka sigri, 30-28. Ómar Ingi var markahæsti maður Magdeburg með sex mörk, ásamt því að leggja upp önnur fimm fyrir liðsfélaga sína. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Magdeburg sem er enn með fullt hús stiga eftir fimm leiki.

Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen tóku á móti Janusi Daða Smárasyni og félögum hans í Göppingen í Íslendingaslag. Janus og félagar voru með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki tímabilsins fyrir leikinn, á meðan að Ljónin voru aðeins með einn sigur í sínum þrem leikjum.

Mikið jafnræði var með liðunum á upphafsmínútum leiksins, en um miðbik fyrri hálfleiks tóku Ýmir og félagar yfirhöndina. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 19-16, Löwen í vil.

Ýmir og félagar voru áfram með yfirhöndina í seinni hálfleik og unnu að lokum nokkuð öruggan fimm marka sigur, 37-32.

Íslendingaliðið MT Melsungen vann naumlan sigur gegn TUS N-Lübbecke í fyrsta leik liðsins eftir að Guðmundur Guðmundsson hætti þjálfun liðsins.

Arnar Freyr Arnarsson, Elvar Örn Jónsson og Alexander Petersson leika allir með liðinu sem að unnu sinn fyrsta sigur á tímabilinu, 23-22, eftir jafna og spennandi viðureign. Þetta var fyrsti sigur Melsungen á tímabilinu, en áður hafði liðið tapað tveim og gert eitt jafntefli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.