Körfubolti

Spilaði Evrópuleik með Haukum fimm dögum áður en liðsfélagi hennar fæddist

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir og Lovísa Henningsdóttir lyfta bikarnum sem Haukarnir unnu um síðustu helgi.
Helena Sverrisdóttir og Lovísa Henningsdóttir lyfta bikarnum sem Haukarnir unnu um síðustu helgi. Vísir/Hulda Margrét

Kvennalið Hauka spilar í kvöld fyrsta Evrópuleik íslensks kvennaliðs í körfubolta í næstum því fimmtán ár þegar liðið fær portúgalska liðið Sportiva í heimsókn á Ásvelli.

Þetta er fyrri leikurinn í undankeppni Euro Cup en seinni leikurinn fer fram á Asóreyjum eftir viku. Sigurvegarinn kemst inn í riðlakeppni Euro Cup sem stendur yfir frá 14. október til 2. desember.

Haukakonur tóku þátt í Evrópukeppninni tvö ár í röð frá 2005 til 2006, en síðan hefur ekkert íslenskt kvennakörfuboltalið reynt fyrir sér í Evrópu.

Helena Sverrisdóttir, fyrirliði Haukaliðsins, er komin aftur heim til Hauka eftir nokkurra ára dvöl hjá Val, en hún var einmitt lykilmanneskja í Haukaliðinu sem spilaði tólf Evrópuleiki frá 2005 til 2006.

Helena var þá aðeins 17 og 18 ára gömul en þegar orðin besta körfuboltakona landsins. Hún var með 20,7 stig, 6,5 fráköst og 4,2 stoðsendingar í leik í Evrópukeppninni 2006.

Nú vill líka svo til að Helena var búin að spila sex Evrópuleiki með Haukum þegar yngsti liðsfélagi hennar í Haukaliðinu í dag fæddist.

Bakvörðurinn Jana Falsdóttir fæddist 29. nóvember 2005 en Haukar spiluðu síðasta Evrópuleikinn sinn þann veturinn fimm dögum fyrr og var hann spilaður á Sikiley. Helena var með 23 stig í leiknum.

Evrópuleikur Hauka og Sportiva hefst klukkan 19.30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×