Innlent

Fékk ís­­lenska ein­angrun í fimm­tugs­af­­mælis­­gjöf

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Kroll segir matinn hafa verið langverstann við dvölina á farsóttahótelinu.
Kroll segir matinn hafa verið langverstann við dvölina á farsóttahótelinu. vísir/vilhelm

Bandarískur embættismaður frá Flórída eyddi fimmtugsafmælisferð sinni til Íslands á farsóttarhóteli. Hann segir dvölina hafa verið erfiða, einkum vegna matarins og að sér hafi liðið eins og heimilisketti á hótelinu.

J.R. Kroll er nýkjörinn skattheimtumaður í Seminole-sýslu í Flórída, Bandaríkjunum. Hann tók við stöðunni af Joel Greenberg, sem varð að segja af sér eftir hneykslismál.

Kroll varð fimmtugur í júní á þessu ári og fékk þá sex daga ferð til Íslands í gjöf frá konunni sinni. 

„Það hefur alltaf verið á golulista (e. bucket list) okkar að sjá Ísland því það er svo fallegt land. Ég sá reyndar ansi lítið af því…“ segir Kroll í samtali við fréttastofu.

Hrifinn af skilvirkni Íslendinga

Þau hjón fóru í tvær sýnatökur stuttu fyrir brottförina til Íslands og fengu neikvæðar niðurstöður úr báðum.

Þega þau voru nýlent fór Kroll þó að finna fyrir slappleika og ákveður að bóka sýnatöku hjá heilsugæslunni degi síðar.

Hann kveðst afar sáttur með fyrirkomulag við sýnatökur hérlendis. „Mjög skilvirkt… Miklu skilvirkara en í Bandaríkjunum!“ segir hann.

Hann var þó ekki alveg eins hrifinn af ferlinu sem tók svo við eftir að hann greindist Covid-19.

„Þeir sóttu mig og fóru með mig á farsóttahótelið. Upprunalega hótelið mitt var mun betra,“ segir hann og hlær. Þau hjónin hafi til dæmis ætlað að njóta sín í heilsulind þess og taka því rólega milli ferða hingað og þangað um landið á helstu ferðamannastaðina.

Leið eins og inniketti

„Þetta var samt ekkert hræðileg aðstaða. Ég held bara að manni geti varla liðið vel þar sem maður er lokaður inni í svona langan tíma,“ segir Kroll.

Eiginkona hans reyndist ekki smituð af veirunni og flaug því beint aftur heim.

Kroll eyddi því fimmtugsafmælisferðinni einn með farsímanum, án tölvu, bóka eða nokkurs annars afþreyingarefnis. Reyndar hafði hann aðgang að tveimur erlendum sjónvarpsstöðvum á hótelinu en þær sýndu, að hans sögn, sömu þættina í endursýningu ansi reglulega. 

Hann var þá aðeins búinn að pakka með sér fötum fyrir sex daga ferð en endaði á að dvelja hér í 13 daga. Hann kveðst því nokkuð þakklátur fyrir að lyktarskynið hafi horfið.

Ekkert eftirlit í Flórída

Hann segir allt í kring um faraldurinn hér ansi ósvipað því sem hann þekkir frá Flórída. 

Til dæmis sé ekkert eftirlit með því hvort fólk haldi sig í einangrun þegar það greinist smitað eða skýrar reglur um hve lengi fólk þarf vera innilokað. Þar séu heldur engin farsóttahótel eins og á Íslandi. 

„Maður þarf í rauninni bara að fara í sóttkví af eigin hvötum ef maður fær veiruna. Stjórnvöld grípa ekki inn í á neinn hátt með aðgerðum. Þess vegna eru smittölur líklega svona háar hér," segir Kroll. 

Hann er staðráðinn í að heimsækja Ísland aftur síðar en ætlar ekki að ferðast meira í þessum faraldri. 

En stóð eitthvað upp úr eftir þessa hálfmisheppnuðu ferð hans?

„Tjah, það var allavega ekki maturinn á hótelinu…“ segir hann og hlær.

„Maturinn annars staðar á landinu var frábær en hótelmaturinn var skelfilegur. Hann var aldrei heitur og ég hefði alveg verið til í að hafa örbylgjuofn hérna hjá mér á herberginu.“

Hann ítrekar þó að allt starfsfólk hótelsins og hjúkrunarfræðingar hafi verið afar indæl og staðið sig með einstakri prýði.

Kannast við ósætti við matinn

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttahúsanna, segist vita vel að margir séu ósáttir með matinn.

„Auðvitað höfum við heyrt athugasemdir, sérstaklega með matinn. Það er erfitt þegar margir eru í húsi og á tímabili þegar við vorum með allt upp í 5-600 manns. Það tekur tíma að dreifa matnum og hann getur kólnað á meðan. En við reynum auðvitað að gera okkar besta. En það er erfitt að láta öllum líka vel en við reynum,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Gylfi Þór Þorsteinsson er umsjónarmaður farsóttarhótelsins á Rauðarárstíg.Vísir/Einar

Fáið þið líka hrós?

„Jájá. Við fáum mjög mikið af góðum þakkarbréfum frá fólki sem hefur verið hjá okkur. Það er nú þannig að til okkar kemur fólk sem getur ekki verið annarstaðar. Til dæmis erlendir ferðamenn sem hafa þurft að vera hér á landi tveimur vikum lengur en ella út af einangrun. Í langflestum tilfellum eru þau bara fegin að fá þessa þjónustu og þurfa ekki að greiða fyrir,“ segir Gylfi.

„Auðvitað eru alltaf einhverjir ósáttir, og við reynum þá að leysa það eins og okkur er unnt. En það er auðvitað erfitt að þurfa að vera í einangrun í allan þennan tíma. Það er ekkert launungarmál.“


Tengdar fréttir

Vinur Gaetz ætlar að játa og starfa með saksóknurum

Joel Greenberg, fyrrverandi embættismaður í Flórída og vinur þingmannsins umdeilda Matt Gaetz, hefur játað að hafa greitt sautján ára stúlku peninga fyrir að stunda kynlíf með öðrum mönnum. Hann ætlar sömuleiðis að vinna með saksóknurum Dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna.

Vinur Gaetz vildi náðun og viðurkenndi kynlíf með sautján ára stúlku

Joel Greenberg, kjörinn fulltrúi í Flórída og vinur þingmannsins umdeilda Matt Gaetz, skrifaði í bréfi til Rogers Stone, fyrrverandi ráðgjafa Donalds Trump, fyrrverandi forseta, að hann og Gaetz hefðu greitt fyrir kynlíf með mörgum konum, þeirra á meðal sautján ára stúlku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×