Skoðun

Stundum partur af Evrópu

Heiða Ingimarsdóttir skrifar

Eins og fjölmargir Íslendingar hef ég aflað mér framhaldsmenntunar erlendis. Fyrir valinu varð England, fyrir Brexit vitanlega, og ég útskrifaðist að lokum með MA gráðu. Þegar út var komið mætti ég á nýnemadaga. Þar var mér sagt að fylgja Evrópunemendunum eftir því ég væri jú frá Evrópu. Það væru nú svo mikil líkindi á menningu og siðum að ég þyrfti ekki auka fræðslu.

Þegar ég flutti þurfti ég ekki landvistarleyfi. Enda kom ég frá Evrópu og á grundvelli samningsins um evrópska efnahagssvæðið (EES) þurfti þess ekki. En eins og áður segir var þetta áður en varð af Brexit.

Ég mátti byrja að vinna strax ef ég vildi og börnin mín fóru inn í skólakerfið án nokkurra vandkvæða. Ég gekk inn á næstu heilsugæslu og fékk alla þjónustu þar frítt. Alls staðar brosti fólk og sagði mér að ég hefði hin og þessi réttindi því Ísland væri hluti af EES.

En þegar kom að því að gera upp námið breyttist allt. Ég þurfti að greiða skólagjöld. Allt í einu var ég ekki hluti af Evrópu lengur. Ég var frá Íslandi. Þegar kom að skólagjöldum var ég alþjóðanemandi. Þetta þýddi að ég mátti punga út tvöfaldri upphæð á við skólafélaga mína frá Evrópu. Munurinn lá í því að þeir voru frá löndum innan ESB og EES samningurinn dekkaði ekki þennan hluta skólavistarinnar.

Þetta er pínu dæmi af því hver staðan er án fullrar ESB aðildar. Við erum með en við erum samt ekki með. Á meðan við erum ekki fullgildir meðlimir missum við af ýmsum réttindum og það sem er verst: við höfum enga rödd þegar kemur að stefnumótun og lagasetningu innan Evrópulandanna. Með inngöngu í ESB fengjum við sæti við borðið, hefðum rödd og áhrif á það regluverk sem við síðan þurfum að lifa eftir.

Það hlýtur að vera lýðræðislegur réttur okkar að aðildaviðræður séu kláraðar og að við fáum síðan að kjósa um samning um fulla aðild okkar að ESB.

Höfundur er frambjóðandi í 5. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×