Erlent

Skipu­leggj­endur minningar­at­hafnar á­kærðir fyrir að ógna þjóðar­öryggi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lee, sem er til hægri á myndinni með gráa grímu, hefur verið ákærður fyrir að ógna þjóðaröryggi en hann afplánar nú annan fangelsisdóm.
Lee, sem er til hægri á myndinni með gráa grímu, hefur verið ákærður fyrir að ógna þjóðaröryggi en hann afplánar nú annan fangelsisdóm. EPA-EFE/JEROME FAVRE

Skipuleggjendur minningarathafnar um ódæðisverkin sem framin voru á Torgi hins himneska friðar hafa verið ákærðir fyrir að hafa ógnað þjóðaröryggi Hong Kong.

Lögreglan í Hong Kong hefur undanfarið handtekið og ákært fjölda stjórnarandstæðinga fyrir brot á nýlegum þjóðaröryggislögum. Þar á meðal eru forsprakkar LýðræðishreyfingarinnarThe Hong Kong Alliance in Support of Patriotic Democratic Movements in China.

Formaður hreyfingarinnar Lee Cheuk-yan og varaformennirnir tveir Albert Ho og Chow Hang-tung voru í gærkvöldi ákærð fyrir að hafa ógnað þjóðaröryggi og grafið undan yfirvaldinu, samkvæmt öryggislögum sem tóku gildi í Hong Kong í fyrra að frumkvæði stjórnvalda í Peking.

Málið var tekið fyrir af dómstólum í morgun en Lee og Ho afplána nú dóm fyrir þátt þeirra í mótmælunum árið 2019. Chow og fjórir til viðbótar voru handteknir fyrr í þessari viku fyrir að hafa ekki veitt upplýsingar í yfirstandandi rannsókn.

Lögreglan framkvæmdi í gær húsleit á Fjórða júní safninu, sem samtökin halda úti til minningar um atburðina á Torgi hins himneska friðar þann 4. júní 1989. Safnið hefur verið lokað um nokkurt skeið en lögreglan lagði þar hald á tölvur, ýmis skjöl og auglýsingaefni. Þá hefur lögreglan fryst eignir samtakanna sem nema 280 þúsund Bandaríkjadölum, eða um 36 milljónum króna.

Samtökin eru þekktust fyrir að skipuleggja árlega minningarathöfn um atburðina á Torgi hins himneska friðar. Árlega söfnuðust þúsundir saman til að minnast atburðina, fyrir utan síðustu tvö ár en minningarathöfnin hefur verið bönnuð í Hong Kong síðan í fyrra. Stjórnvöld hafa borið fyrir sig samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins en skipuleggjendur telja skilaboð athafnarinnar orsökina.

Eins og áður segir hafa stjórnvöld herjað á stjórnarandstæðinga undanfarin tvö ár, allt frá því að fjöldamótmæli sem stóðu yfir í marga mánuði hófust sumarið 2019. Tugir stjórnarandstæðinga hafa flúið Hong Kong og enn fleiri verið handteknir og fangelsaðir.


Tengdar fréttir

Bandaríkin veita íbúum Hong Kong 18 mánaða dvalarleyfi

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt að íbúar Hong Kong í Bandaríkjunum geti sótt um 18 mánaða dvalarleyfi vegna aðgerða kínverskra stjórnvalda. Ákvörðunin kann að verða til hagsbóta fyrir þúsundir íbúa Hong Kong sem þegar dvelja í Bandaríkjunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×