Skoðun

Saklaus uns sekt er sönnuð?

Þórdís Valsdóttir skrifar

Ég var 19 ára og ég kærði ekki.

Ég gerði allt „samkvæmt bókinni”, í upphafi í það minnsta. Leitaði beint til Neyðarmóttöku LSH í Fossvogi og var skoðuð af lækni og gaf skýrslu.

Svo var mér greint frá því hvernig svona mál fara í réttarkerfinu. Um 70% nauðgunarmála komast aldrei í dómsal. Sönnun í slíkum málum er erfið - orð gegn orði, þið vitið. Opinberunin líka erfið. Ég treysti mér ekki í þann slag og reyndi mitt besta að sópa öllu undir teppið.

Er maðurinn sem braut á mér saklaus fyrst sekt hans var ekki sönnuð? Já, hann er saklaus fyrir dómi. En ég veit að hann er hvergi nærri saklaus.

Umræðan undanfarna mánuði hefur verið erfið fyrir alla þolendur ofbeldis, ég þori að fullyrða það. Okkur er einfaldlega ekki trúað.

Er fjarstæðukennt að trúa þeim örfáu þolendum sem greina opinberlega frá þeim brotum sem þær hafa orðið fyrir? Það hljóta allir að sjá að enginn leikur sér að því að opinbera sig með slíkum hætti.

Ætlum við virkilega að samþykkja það að háttvirtir karlmenn innan samfélagsins, innan réttarkerfisins, brýni raustina og smáni opinberlega konur sem segja frá, til þess eins að rýra trúverðugleika þeirra?

Það er mikilvægt að við áttum okkur öll á því að við erum ekki einungis að tala um eitt ákveðið atvik, eina ákveðna konu og eitt brot. Við erum svo margfalt fleiri. Þetta snýst um rótgróin viðhorf í samfélaginu, í menningu okkar.

Við erum í miðri byltingu, byltingu fyrir breyttum viðhorfum og betra réttarkerfi sem vinnur ekki bókstaflega gegn þolendum. Baráttu gegn kynbundnu ofbeldi.

Ósk mín er ekki sú að konur verði ekki fyrir ofbeldi, heldur sú að karlar hætti að beita konur ofbeldi. Til þess að sú „útópía” geti orðið að veruleika þurfum við öll að leggjast á eitt. Strax í dag.

Höfundur er lögfræðingur og fjölmiðlakona.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×