Körfubolti

Dallas Mavericks ræður leikmann úr WNBA deildinni sem þjálfara hjá sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristi Toliver er að spila með Los Angeles Sparks í WNBA deildinni.
Kristi Toliver er að spila með Los Angeles Sparks í WNBA deildinni. Getty/Meg Oliphant

Kristi Toliver er að spila í WNBA deildinni í sumar og fer síðan að þjálfa í NBA-deildinni í vetur. Dallas Mavericks réð hana í gær.

Toliver hefur unnið fyrir þjálfarateymi Washington Wizards liðsins undanfarin tvö tímabil. Hún verður aðstoðarþjálfari hjá Dallas.

Dallas Mavericks hefur áður verið með konu í þjálfarateymi sínu en Íslandsvinurinn Jenny Boucek var í teyminu frá 2018 til 2021. Boucek fylgdi þjálfaranum Rick Carlisle til Indiana Pacers.

Toliver er 34 ára gömul og er að spila með Los Angeles Sparks í sumar í WNBA-deildinni. Hún er með 9,5 stig og 2,8 stoðsendingar að meðaltali á 27,7 mínútum í leik.

Hún hefur tvisvar sinnum orðið WNBA meistari, fyrst árið 2016 með Los Angeles Sparks og svo aftur árið 2019 með Washington Mystics. Hún hefur einnig unnið EuroLeague tvisvar sinnum með Ekaterinburg liðinu.

Toliver lék síðast í Rússlandi 2018 en hefur síðan unnið að því að verða þjálfari utan WNBA tímabilsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×