Körfubolti

Enn verið að borga NBA leikmönnum sem eru löngu hættir að spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luol Deng heilsar Flo Rida fyrir leik hjá Los Angeles Lakers liðinu í Staples Center. Deng er löngu hættur en Lakers er enn að borga honum.
Luol Deng heilsar Flo Rida fyrir leik hjá Los Angeles Lakers liðinu í Staples Center. Deng er löngu hættur en Lakers er enn að borga honum. Getty/Noel Vasquez

Það eru sumir fyrrum körfuboltamenn sem fá enn vel borgað fyrir að gera ekki neitt. Skórnir eru kannski komnir upp á hillu en peningarnir streyma áfram inn á bankareikninginn.

Basketball Forever vefurinn tók saman nokkra leikmenn sem eru í þessari sérstöku stöðu. Leikmennirnir eiga það sameiginlegt að hafa gert langa og frábæra samninga en síðan verið látnir fara. Það þarf samt enn að standa við þessa samninga.

Eitt rosalegasta dæmið er Luol Deng sem skrifaði undir fjögurra ára samning í júlí 2016 sem gaf honum 72 milljónir dollara eða meira en níu milljarða í íslenskum krónum.

Deng náði aðeins að spila 57 leiki fyrir Lakers áður en félagið lét hann fara. Lakers samdi um að greiða honum tuttugu milljónir dollara seinna og dreifðust þær greiðslur út 2021-22 tímabilið.

Með því að greiða Deng 72 milljónir dollara og fá aðeins 57 leiki frá honum þá borgaði Lakers leikmanninum 1,26 milljón Bandaríkjadala fyrir hvern leik eða 159 milljónir í íslenskum krónum.

Það eru samt fleiri fyrrum NBA leikmenn sem eru enn að fá borgað.

Í þessum hópi er meðal annars Kevin Garnett sem er enn að fá borgað frá Boston Celtics. Celtics þarf að borga honum út 2022-23 tímabilið en það skuldaði honum 35 milljónir dollara þegar leikmaðurinn hætti.

Garnett samþykkti að dreifa þessum greiðslum, alls 4,4 milljarðar í íslenskum krónum á sjö tímabil og á Celtics ennþá eftir að borga honum í tvö tímabil í viðbót. Garnett lék sinn síðasta NBA leik árið 2016.

Aðrir eru Joakim Noah sem er enn að fá pening frá New York Knicks, Chris Bosh sem er enn að fá borgað frá Miami Heat, Larry Sanders sem fær enn pening frá Milwaukee Bucks og Timofey Mozgov sem er enn að fá borgað frá Orlando Magic. Það má sjá meira um það hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.