Körfubolti

Sigur á Dönum í kvöld færir liðinu sæti í undan­keppninni og um leið leiki í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson í leik með íslenska landsliðinu á móti Svartfjallalandi í gær.
Ægir Þór Steinarsson í leik með íslenska landsliðinu á móti Svartfjallalandi í gær. fiba.basketball

Íslenska körfuboltalandsliðið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í undankeppni HM í körfubolta á móti Svartfjallalandi í gær en strákarnir okkar fá annað tækifæri í kvöld.

Íslenska liðið tapaði fyrir heimamönnum á flautukörfu eftir að hafa misst niður forystuna í lokin. Íslenska liðið hefur verið að spila vel í síðustu tveimur leikum og þarf nú að klára dæmið til að tryggja sér fleiri leiki í vetur.

Ísland mætir Danmörku í kvöld í síðasta leik sínum í FIBA bubblunni í Svartfjallalandi og það er orðið ljóst að íslenska liðið þarf að vinna leikinn til að vera öruggt með sæti í undankeppni HM 2023.

Tvö af þremur liðum í þessum riðli í forkeppninni komast áfram í undankeppnina sem hefst í haust en þar koma inn liðin sem komust í úrslitakeppni Eurobasket.

Íslensku strákarnir áttu frábæran leik í fyrri leiknum á móti Dönum sem vannst með 21 stigi, 91-70, þar sem Elvar Már Friðriksson skoraði meðal annars 30 stig og gaf 5 stoðsendingar.

Tapist leikurinn í kvöld með tuttugu stigum eða minna er enn smá von um annað sætið en þá þarf Svartfjallaland að vinna Danmörku í lokaleiknum annað kvöld. Svartfellingar hefðu þá samt að engu að keppa í þeim leik en Danir kæmust áfram með sigri.

Íslenska landsliðið er í raun að spila upp á það að fá landsleiki í vetur en lendi liðið í þriðja sætinu í sínum riðli í forkeppninni þá verða engir FIBA leikir hjá liðinu í keppni næstu misserin. Næsta Evrópukeppni er ekki ekki fyrr en árið 2025 og undankeppni hennar hefst ekki nærri því strax.

Takist íslenska liðinu aftur á móti að klára dæmið og tryggja sér sæti í undankeppni HM 2023 þá tekur við nýr riðill með fjórum þjóðum þar sem allir spila við alla en dregið verður í riðla í lok mánaðarins. 32 bestu þjóðir Evrópu fá að keppa í undankeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×