Körfubolti

Jón Axel fékk að­eins sex mínútur í fyrsta sigri Suns í sumardeildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Axel í leik með Fraport Skyliners í Þýskalandi á síðustu leiktíð.
Jón Axel í leik með Fraport Skyliners í Þýskalandi á síðustu leiktíð. Skyliners

Jón Axel Guðmundsson fékk ekki margar mínútur er Phoenix Suns vann sex stiga sigur á Denver Nuggets í sumardeild NBA í körfubolta, lokatölur 90-84.

Jón Axel hóf leik á varamannabekk Suns og horfði á Denver byrja betur. Liðið leiddi með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta. Staðan í hálfleik var 43-41 Denver í vil. Íslenski landsliðsmaðurinn kom inn af bekknum um miðjan þriðja leikhluta þegar staðan var 51-50 fyrir Denver.

Suns voru fjórum stigum undir aðeins mínútu síðar en Jón Axel setti þá niður þrist af löngu færi og minnkaði muninn í 57-56. Hann kláraði leikhlutann en settist svo á bekkinn aftur í fjórða leikhluta. Þar reyndust leikmenn Suns sterkari og unnu leikinn með sex stiga muna, 90-84.

Jón Axel endaði með þrjú stig en hann tók alls fjögur skot meðan hann var inn á vellinum. Þá gaf hann eina stoðsendingu. Jalen Smith var stigahæstur hjá Suns með 21 stig ásamt því að taka 11 fráköst.

Var þetta fyrsti sigur Suns í sumardeildinni en liðið mætir Portland Trail Blazers í lokaleik liðsins í sumardeildinni á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×