Körfubolti

42 stig Mills tryggðu Áströlum fyrstu verðlaunin á ÓL

Valur Páll Eiríksson skrifar
Patty Mills fór mikinn í dag og fer að launum heim með bronsverðlaunapening.
Patty Mills fór mikinn í dag og fer að launum heim með bronsverðlaunapening. Gregory Shamus/Getty Images

Ástralir hlutu verðlaun í körfubolta karla á Ólympíuleikum í fyrsta sinn eftir 107-93 sigur á Slóveníu í bronsleiknum í dag. Frakkar hlutu brons kvennamegin eftir sigur á Serbíu.

Í karlaflokki voru Ástralir með yfirhöndina framan af gegn Slóvenum. Staðan í hálfleik var 53-45 fyrir þá áströlsku. Slóvenar áttu ágætis áhlaup í síðari leikhlutunum tveimur en tókst aldrei að brúa bilið til fulls.

Ástralir héldu forystu sinni allt til loka og unnu 14 stiga sigur, 107-93. Þeir hljóta því brons á leikunum. Þetta er í fyrsta sinn sem þeir áströlsku vinna til verðlauna á leikunum en liðið hefur fjórum sinnum lent í fjórða sæti; í Seoúl 1988, Atlanta 1996, Sydney 2000 og á síðustu leikum í Ríó 2016.

Patty Mills, leikmaður San Antonio Spurs, átti risaleik fyrir Ástrala er hann skoraði 42 stig auk þess að gefa níu stoðsendingar. Luka Doncic, leikmaður Dallas Mavericks, var atkvæðamestur hjá Slóvenum með 22 stig, átta fráköst og sjö stoðsendingar.

Bandaríkin urðu Ólympíumeistarar karla fyrr í dag eftir sigur á Frökkum í úrslitum.

Franskt brons kvennamegin

Í kvennaflokki hlutu Frakkar brons eftir 91-76 sigur á Serbíu í leik um þriðja sætið í morgun. Staðan þar var 43-40 í hálfleik en þær frönsku stungu af þegar leið á.

Gabby Williams var stigahæst í franska liðinu með 17 stig en stigahæst á vellinum var Yvonne Anderson með 24 stig fyrir Serbíu.

Þær frönsku töpuðu fyrir Japan í undanúrslitunum en heimakonurnar mæta Bandaríkjunum í úrslitum keppninnar í nótt. Frakkland er að fá verðlaun á Ólympíuleikum í annað sinn, eftir að hafa hlotið silfur í greininni í Lundúnum 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×