Erlent

Fyrr­verandi for­seti EFTA-dóm­stólsins fer hörðum orðum um Pál Hreins­son

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins, (vinstri) og forveri hans í starfi Carl Baudenbacher (hægri). Baudenbacher gegndi stöðunni frá árinu 1995 til ársins 2018.
Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins, (vinstri) og forveri hans í starfi Carl Baudenbacher (hægri). Baudenbacher gegndi stöðunni frá árinu 1995 til ársins 2018.

Carl Bau­den­bacher, fyrr­verandi for­seti EFTA-dóm­stólsins, fer afar hörðum orðum um eftir­mann sinn Pál Hreins­son í að­sendri grein sem birtist í Morgun­blaðinu í gær. Hann segir Pál hafa glatað sjálf­stæði sínu, hafi hann ein­hvern tíma verið sjálf­stæður yfir höfuð, því hann „starfar í hjá­verkum fyrir ís­lenska for­sætis­ráðu­neytið“.

Það er fá­heyrt að fyrrverandi for­seti dóm­stóls gagn­rýni eftir­mann sinn svo harð­lega en Bau­den­bacher hefur grein sína á að rekja tvö ráð­gefandi álit sem EFTA-dóm­stóllinn gaf út þann 30. júní síðast­liðinn í málum sem tengdust því sem hann kallar „hið norska vel­ferðar­hneyksli“.

„Þessir tveir úr­skurðir marka nýjasta lág­punktinn í þróun sem hófst snemma árs 2018, þegar Páll Hreins­son varð for­seti EFTA-dóm­stólsins,“ skrifar Bau­den­bacher í greininni.

„Frá þeim tíma hefur EFTA-dóm­stóllinn tekið ó­hóf­lega vin­sam­lega af­stöðu gagn­vart norska ríkinu á kostnað borgara og fyrir­tækja.“

Þannig sakar hann Pál um að hafa aug­ljósa til­hneigingu til að dæma mál norska ríkinu í vil og nefnir nokkur dæmi norskra dóms­mála sem hafa farið fyrir dóminn.

Dómstólar í Evrópu hafi misst álit á dómstóli Páls

Hann segir ís­lenska dóm­stóla hafa misst álit á EFTA-dóm­stólnum og því séu þeir hættir að vísa mikil­vægum málum þangað:

„Ís­lensku dóm­stólarnir, sem áður vísuðu ýmsum mikil­vægustu málum sínum til EFTA-dóm­stólsins og fram­fylgdu úr­skurðum hans af sam­visku­semi, hafa nánast hætt að vísa málum til Lúxem­borgar, að því er virðist af því að þeir gera sér grein fyrir því sem nú er upp á teningnum,“ skrifa Bau­den­bacher.

„Norsku dóm­stólarnir halda hins vegar vísunum sínum á­fram. Ó­líkt því sem gerist á Ís­landi eru norsku dóm­stólarnir þétt­skipaðir fyrr­verandi kerfiskörlum, sem eru ó­sjaldan reiðu­búnir að hlíta pólitískum merkja­sendingum og dæma ríkinu í hag. Séð frá því sjónar­horni eru við­horf þeirra skiljan­leg.“

Flestir dóm­stólar Evrópu­sam­bandsins hafa nú nánast hætt öllum réttar­fars­legum sam­skiptum við EFTA-dóm­stólinn, að sögn Bau­den­bacher­s. Hann segir þetta hafa veikt stöðu EFTA-stoðarinnar gagn­vart ESB.

Hann segir þá hæpið að úr­skurður eins og sá sem var kveðinn upp í Icesa­ve-málinu 2013 hlyti sam­þykki Evrópu­sam­bandsins.

Hægt að véfengja alla dóma Páls

„Loks er það eftir öllu að for­seti EFTA-dóm­stólsins, Páll Hreins­son, starfar í hjá­verkum fyrir ís­lenska for­sætis­ráðu­neytið, að því er virðist gegn þóknun,“ skrifar fyrr­verandi for­seti dóm­stólsins. Og nefnir þar sér­fræðings­á­lit sem Páll skrifaði fyrir ráðu­neytið haustið 2020 um lög­mæti tak­markana á grund­vallar­réttindum í Co­vid-far­aldrinum.

Hann segir Pál þarna fjalla um svið sem heyrir undir lögin um Evrópska efna­hags­svæðið fyrir ríkis­stjórnina. Á­lits­gerðin hafi verið mála­mynda­skjal þar sem ríkis­stjórninni væri gefnar nánast frjálsar hendur.

„Hafi Páll Hreins­son nokkurn tíma verið sjálf­stæður hefur hann með þessu glatað sjálf­stæði sínu.“

Hann segir að nú sé hægt að véfengja hvern þann dóm sem kveðinn hefur verið upp með að­komu Páls.

Bau­den­bacher lýkur svo grein sinni á þessum orðum:

„Mér er ljóst að það er ó­vana­legt að fyrr­verandi for­seti EFTA-dóm­stólsins, sem starfandi er á eigin vegum, skrifi grein sem þessa. En ó­venju­legar að­stæður kalla á ó­venju­legar að­gerðir. Eins og franski til­vistar­stefnu­heim­spekingurinn Jean-Paul Sar­tre skrifaði: „Öll orð hafa af­leiðingar. Sama gildir um alla þögn.““


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×