Handbolti

„Fáránlegt að við þurfum að borga fyrir að spila ekki í bikiníbuxum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tonje Lerstad er markvörður norska strandhandboltaliðsins.
Tonje Lerstad er markvörður norska strandhandboltaliðsins. instagram síða Tonje Lerstad

Tonje Lerstad, markvörður norska strandhandboltaliðsins, er þakklát fyrir stuðninginn sem liðinu hefur borist síðustu daga, meðal annars frá söngkonunni Pink.

Norska liðið fékk sekt frá Evrópska handknattleikssambandinu, EHF, fyrir að spila í stuttbuxum en ekki bikiníbuxum í lokaleik sínum á EM í Búlgaríu um þarsíðustu helgi.

Málið hefur vakið mikla athygli og Lersted ræddi deilu norska liðsins og EHF við BBC.

„Það er fáránlegt að við þurfum að borga fyrir að spila ekki í bikiníbuxum,“ sagði Lersted.  Sektin frá EHF var 1.500 evrur, eða 220 þúsund íslenskar krónur. 

Bandaríska söngkonan lýsti yfir stuðningi við norska liðið á Twitter og bauðst til að borga sektina sem það fékk frá EHF.

„Þetta er brjálað. Okkur var brugðið en þetta eru svo mikilvæg skilaboð og okkur þykir vænt um þetta,“ sagði Lerstad.

Pink þarf reyndar ekki að borga sekt norska liðsins því norska handknattleikssambandið ætlar að gera það. Lerstad og stöllur hennar eru samt þakklátar söngkonunni vinsælu.

„Hún þarf ekki að borga sektina en hún má gefa okkur miða á tónleika og við getum þá hist í stuttbuxunum okkar,“ sagði Lerstad í léttum dúr.

„Það hafa svo margir boðist til að borga sektina að kannski ættum við að opna stóran bankareikning,“ bætti markvörðurinn við.

Lerstad segir að norska liðið hafi fengið stuðning frá öðrum liðum og hún trúir ekki öðru en að reglunum um klæðaburð á mótum í strandhandbolta verði breytt. EHF hefur sagst ætla að taka málið fyrir. Norðmenn fagna þó ekki strax enda hefur norska handknattleikssambandið lengi talað fyrir daufum eyrum þegar kemur að því að breyta reglunum umdeildu.

Í viðtalinu við BBC var Lerstad loks spurð hvort norska liðið myndi spila í stuttbuxum á HM í strandhandbolta. „Já, klárlega,“ sagði markvörðurinn ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×