Handbolti

Sektaðar fyrir að spila í stuttbuxum en ekki bikiníi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Reglur um klæðaburð á mótum í strandhandbolta eru mjög strangar.
Reglur um klæðaburð á mótum í strandhandbolta eru mjög strangar. getty/Ilnar Tukhbatov

Norska kvennalandsliðið í strandhandbolta lét á það reyna að spila í stuttbuxum í lokaleik sínum á EM í Búlgaríu og var refsað fyrir.

Norðmenn hafa staðið í stappi við EHF, evrópska handknattleikssambandið, vegna reglna um klæðaburð á mótum í strandhandbolta. Samkvæmt reglunum þurfa konur að spila í bikiníi á meðan karlar klæðast hlýrabolum og stuttbuxum.

Norska handknattleikssambandið óskaði eftir því að fá að spila í stuttbuxum á EM. Fyrst var því hótað sektum, sem það var tilbúið að borga, en fyrir fyrsta leikinn á EM var sektin skyndilega hækkuð og því hótað frekari refsingum, meðal annars að liðinu yrði hent úr keppni. Norska liðið gaf þá eftir.

Í viðureigninni gegn Spáni um 3. sætið á EM mætti norska liðið til leiks í stuttbuxum eins og þær óskuðu eftir því að spila í fyrir mót.

Það mæltist ekki vel fyrir hjá EHF sem sektaði norska liðið um samtals 1.500 evrur, eða rétt rúmlega 220 þúsund íslenskar krónur. Hver leikmaður í norska liðinu var sektaður um 150 evrur en fyrir mót átti sú sekt að vera fimmtíu evrur fyrir hvern leikmann.

Spánn vann Noreg í leiknum um bronsið en Þýskaland stóð uppi sem Evrópumeistari eftir sigur á Danmörku.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.