Körfubolti

Hættir við að keppa á Ólympíuleikunum vegna andlegrar vanheilsu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Liz Cambage er ein skærasta stjarna WNBA-deildarinnar.
Liz Cambage er ein skærasta stjarna WNBA-deildarinnar. getty/John McCoy

Ástralska körfuboltakonan Liz Cambage hefur hætt við að keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó vegna andlegra vandamála.

Cambage óttaðist hvaða áhrif dvölin í „búbblunni“ í ólympíuþorpinu myndi hafa á andlega heilsu hennar.

„Í augnablikinu er ég óravegu frá því að vera á þeim stað sem ég vil og þarf að vera á,“ sagði Cambage.

„Það er ekkert leyndarmál að ég hef glímt við andleg veikindi og upp á síðkastið hef ég haft áhyggjur af því að fara inn í búbbluna á Ólympíuleikunum. Engin fjölskylda. Engir vinir. Engir stuðningsmenn. Ekkert öryggisnet fyrir utan liðið mitt. Tilhugsunin var ógnvekjandi.“

Cambage lenti í orðaskaki og ryskingum í æfingaleik Ástralíu gegn Nígeríu í Las Vegas á dögunum. Þá á hún að hafa brotið reglur ástralska liðsins þegar hún fór út á lífið í Vegas.

„Síðasta mánuðinn hef ég fengið taugaáföll, hef ekki sofið né borðað. Það er ekki óskastaða að þurfa að treysta á lyf, sérstaklega þegar þú ert að fara á stærsta svið íþróttanna,“ sagði Cambage sem leikur með Las Vegas Aces í WNBA-deildinni í Bandaríkjunum. Hún á metið yfir flest stig í leik í sögu WNBA (53 stig).

Cambage var í ástralska liðinu sem vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í London 2012 og keppti einnig á Ólympíuleikunum í Ríó fjórum árum seinna. Þar komst Ástralía í átta liða úrslit.

Ekki er langt síðan Cambage hótaði því að sniðganga Ólympíuleikana í Tókýó vegna skorts á fjölbreytileika á kynningarmynd Ástralíu fyrir leikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×