Körfubolti

Giannis frábær í nótt en Phoenix Suns komst samt í 2-0

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Devin Booker átti mjög flottan leik í nótt og hér fer hann framhjá Khris Middleton.
Devin Booker átti mjög flottan leik í nótt og hér fer hann framhjá Khris Middleton. AP/Ross D. Franklin

Phoenix Suns vann annan leikinn í röð í úrslitaeinvíginu á móti Milwaukee Bucks en Suns liðið fagnaði tíu stiga sigri í nótt, 118-108.

Giannis Antetokounmpo var frábær í liði Milwaukee Bucks með 42 stig og 12 fráköst en hann reyndi nánast upp á sitt einsdæmi að koma liðinu aftur inn í leikinn með því að skorað 20 stig í þriðja leikhlutanum.

Giannis þyrfti miklu meiri hjálp og á sama tíma röðuðu leikmenn Suns niður þriggja stiga skotunum en þeir hittu alls úr 20 af 40 skotum sínum fyrir utan.

Phoenix Suns hefur aldrei unnið titilinn en tapaði bæði í lokaúrslitunum 1976 og 1993. Þá lenti liðið 2-0 undir en núna er liðið 2-0 yfir.

Fyrstu tveir leikirnir voru í Phoenix en næstu tveir fara fram á heimavelli Milwaukee Bucks.

Devin Booker skoraði 31 stig fyrir Phoenix Suns og var einnig með sex stoðsendingar en hann hitti úr 7 af 12 þriggja stiga skotum sínum.

Chris Paul skoraði 23 stig, gaf 8 stoðsendingar og hitti úr 3 af 5 þriggja stiga skotum.

Það er óhætt að segja að bakvarðarsveit Suns liðsins hafi verið í fínu lagi en stór strákurinn Deandre Ayton (10 stig, 11 fráköst) var ekki eins sannfærandi.

Það voru fleiri að spila vel því Mikal Bridges skoraði 27 stig sem er það mesta sem hann hefur gert í einum leik í úrslitakeppninni.

Eins og áður sagði þá brugðust liðsfélagar Giannis honum í þessum leik og besta dæmið um það er Khris Middleton sem skoraði aðeins 11 stig en hann klikkaði á 11 af 16 skotum sínum.

Jrue Holiday skoraði 17 stig en hitti aðeins úr 7 af 21 skoti en kom síðan með 14 stig og fjóra þrista af bekknum.

Milwaukee vann stigin í teignum 20-0 í fyrsta leikhluta en voru samt bara þremur stigum yfir því Suns skoraði átta af níu körfum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Phoenix tók síðan völdin í leiknum með því að vinna annan leikhlutann 30-16 og voru með frumkvæðið eftir það.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×