Körfubolti

Haukar styrkja sig fyrir komandi tíma­bil

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sólrún Inga í leik með Coastal Georgia Mariners í bandaríska háskólaboltanum.
Sólrún Inga í leik með Coastal Georgia Mariners í bandaríska háskólaboltanum. Coastal Georgia Sports

Sólrún Inga Gísladóttir hefur samið við silfurlið Hauka um að leika með liðinu í úrvalsdeild kvenna í körfubolta næstu þrjú árin. Sólrún Inga hefur undanfarin ár leikið með Coastal Georgia Mariners í bandaríska háskólaboltanum.

Haukar enduðu í 2. sæti úrvalsdeildar kvenna í vor er liðið tapaði 2-0 fyrir Val í úrslitum. Haukar eru hins vegar stórhuga fyrir næsta tímabil og hafa samið við Helenu Sverrisdóttur, eina albestu körfuboltakonu Íslands, um að leika með liðinu næstu ár.

Nú hefur silfurliðið samið við hina uppöldu Sólrúnu Ingu en hún lék með liðinu tímabilið 2016 til 2017 áður en hún hélt ytra. Hún ætti að reynast Haukaliðinu góður liðsstyrkur en Sólrún Inga var til að mynda í úrvalsliði Sun-deildarinnar öll fjögur árin sem hún lék með Mariners.

Sólrún Inga var með 10 stig og 4 fráköst að meðaltali í þeim 24 leikjum sem hún lék með liðinu á síðustu leiktíð. Þá er hún einkar lunkin þriggja stiga skytta og var með 37 prósent skotnýtingu þegar kom að slíkum skotum.

Því til sönnunar setti hún met í þriggja stiga körfum árið 2018 er hún skoraði níu slíkar í einum og sama leiknum. Um er að ræða met í Sun-deildinni. Áður hafði hún jafnaði metið sem var átta körfur í einum og sama leiknum. Hún gerði svo gott betur þann 18. janúar 2018.

Úrvalsdeild kvenna í körfubolta fer af stað þann 6. október en þá mæta Haukar nýliðum Njarðvíkur á heimavelli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.