Skoðun

Söngur fyrir alla?

Dagný Björk Guðmundsdóttir skrifar

Söngur er órjúfanlegur hluti af íslenskri menningu. Það sést hvað best á öllum hinum frábæru kórum sem starfræktir eru út um allt land og fyrir alla aldurshópa. Söngur og tónlist eru enn fremur órjúfanlegur hluti af dýrmætustu stundum lífs okkar - skírn, brúðkaup og jarðarfarir væru heldur dauflegar ef ekki væri fyrir þennan samhljóm sem tónlistin er í lífi okkar.

Söngur er m.a.s. eitt af betri meðölum sem við eigum í nútímasamfélagi þar sem stór hluti fólks glímir við geðræn vandamál einhvern tíman á lífsleiðinni. Rannsóknir hafa sýnt fram á að söngur getur dregið úr stressi, bætt lundina, fært fólki aukin eldmóð og jafnvel dregið úr skynjun á sársauka á meðan að á söngnum stendur. Ekki má heldur gleyma því að syngja í hóp getur dregið úr félagslegri einangrun. Í Bretlandi er söngur þannig oft notaður í endurhæfingu. Nýlegasta dæmið um slíkt er námsefni og æfingar sem raddþjálfarar frá English National Opera bjuggu til fyrir fólk sem átti í erfiðleikum með öndun eftir veikindi tengt covid-19 smitum.

Af þessum sökum er söngnám mikilvægur þáttur í að búa til nýja söngvara sem tilbúin eru að deila með okkur mikilvægustu stundum okkar í lífinu af fagmennsku. Enn fremur er söngnám mikilvægt sem mannrækt. Söngskóli Sigurðar Dementz hefur allar þessar hugmyndir að leiðarljósi í kennslu sinni. Nemandinn fær að dafna á eigin forsendum og fær að njóta sín í vinalegu umhverfi hvort sem að áhugasviðið liggur á sviði klassískrar óperutónlistar, dægurtónlistar eða söngleikjatónlistar. Gildir einu hvort stefnt er á persónulega sigra og sjálfstyrkingu eða, eins og í mínu tilfelli áframhaldandi nám í tónlist, er stuðningur og þolinmæðin sem fæst hjá kennurum og stjórnendum skólans ómetanleg. Kennarar og stjórnendur gefa allt af sér þrátt fyrir að á vori hverju standi þeir frammi fyrir þeirri erfiðu spurningu: Verður starfræktur skóli næsta ár?

Einkareknir tónlistarskólar í Reykjavík eru í stöðugri baráttu fyrir lífsviðurværi sínu.

Kennarar og nemendur eru skildir eftir í óvissu um hvað verði næsta vetur.

Samningsaðilar á milli ríkis og sveitarfélaga eru ekki sammála um hver eigi að greiða hvað og bitnar það á starfsfólki sem finnur ekki fyrir starfsöryggi og ekki síst nemendunum.

Fjárstuðningur sem fylgir hverjum nemanda frá yfirvöldum dugar ekki fyrir launum kennara. Því fara skólagjöldin hækkandi. Nú eiga söng- og hljóðfærakennarar rétt á launaleiðréttingu í gegnum lífskjarasamningana. Þá kemur hin stóra spurning: eru það nemendur sem eiga að standa undir þeirri launahækkun eða eiga ríki og sveitarfélög að leggja hönd á plóg?

Samningar sem nú þegar eru i gildi við yfirvöld fylgja ekki eftir þessum hækkunum og gera ekki ráð fyrir lífskjarasamningi. Því upphefst á nokkurra ára fresti barátta skólanna um að halda sér á floti. Ein af leiðunum er að hækka skólagjöld og takmarka inngöngu nýrra nemanda. Það stóreykur áhættuna á að núverandi nemendur útilokist frá námi vegna félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna.

Tónlistakennarar alls staðar á landinu eiga hrós skilið fyrir að halda úti námi í erfiðum aðstæðum eins og Covid, finna lausnir og leyfa nemendum að dafna. Hrós fyrir að gefast ekki upp.

Framtíð þessara skóla er nú í höndum menntamálayfirvalda sem tala ætíð um að auka skuli fjölbreytt námsframboð. Af einhverjum völdum verður tónlistin því miður oft eftir í þessum samtölum. Þjóðfélagið græðir á því að búa til söngvara og tónlistarfólk og fjárfesting í tónlistarmenntun skilar sér margfalt til baka til samfélagsins.

Ég skora því hér með á ríkið og Reykjavíkurborg að tryggja jafnt aðgengi að söng og tónlistarnámi fyrir alla og eyða allri óvissu með rekstur skólanna í eitt skipti fyrir allt.

Höfundur er nemandi í Söngskóla Sigurðar Dementz.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.