Innlent

Karlar líklegri til að neita að nota rétt fornöfn um kynsegin fólk

Snorri Másson skrifar
Rannsókn á viðhorfi Íslendinga til kynhlutlauss máls leiðir ýmislegt í ljós.
Rannsókn á viðhorfi Íslendinga til kynhlutlauss máls leiðir ýmislegt í ljós. Vísir/Vilhelm

Töluvert hærra hlutfall karla en kvenna kveðst myndu neita að nota persónufornafnið hán um manneskju sem bæði þá um það. Konur eru líklegri en karlar til að verða við slíkri ósk, ef marka má niðurstöður rannsóknar Lilju Guðmundsdóttur, nýútskrifaðs félagsfræðings.

Mikill munur er einnig á afstöðu fólks til slíkra óska eftir aldri. 90% fólks á aldrinum 18 til 30 ára myndu fúslega nota kynhlutlausa persónufornafnið ef þau væru beðin um það, á meðan aðeins 59% fólks 70 ára og eldri segjast myndu verða við því.

Lilja Guðmundsdóttir útskrifaðist nýverið með BS í félagsfræði. „Viðhorf Íslendinga til kynhlutlausrar orðanotkunar“ var rannsóknarefnið.Instagram

Rannsókn Lilju beindist að því að kanna almennt viðhorf Íslendinga til kynhlutlausrar orðanotkunar og meginniðurstaða ritgerðarinnar er að viðhorfið er jákvætt hjá langflestum. Rúm 90% sögðust ávallt myndu reyna sitt besta.

40% óttast að særa

Í rannsókninni kemur fram að einna mest lýsandi spurningin hafi verið sú sem spurði hvort fólk yrði við óskum um að nota tiltekin fornöfn um aðra. Þar verður ljós umræddur svaramunur á körlum og konum.

Spurt var: „Ef einstaklingur myndi biðja þig um að nota persónufornafnið „hán“ um sig, myndir þú gera það?“

Karlar svöruðu þessari spurningu neitandi í 14,6% tilvika en konur aðeins í 2,95% tilvika. Karlar svöruðu þessu aðeins játandi í 70% tilvika en konur í 90% tilvika.

Lilja Guðmundsdóttir

Á heildina litið 85% sögðust samtals myndu virða þetta við fólk ef það bæði um það.

Rúmlega 40 prósent svarenda sagði að þeim fyndist óþægilegt að nota kynhlutlaus orð af ótta við að gera mistök og særa hlutaðeigandi. Um helmingur fólks telur flókið að finna réttu orðin um kynsegin fólk en fólk sem sjálft er kynsegin telur mun síður að svo sé.

Lilja Guðmundsdóttir

Um 1800 tóku þátt í könnuninni í gegnum vefsíðu sem var dreift til þeirra á samfélagsmiðlum. Úr því að úrtaksaðferðin var takmörkuð segir í ritgerðinni að ekki sé hægt að alhæfa niðurstöðurnar á allt íslenskt samfélag, en þær gefi þó góða hugmynd um viðhorf í samfelaginu. Á sama tíma tóku nánast þrefalt fleiri konur þátt í könnuninni en karlar.


Tengdar fréttir

Kynhlutlaust mál bannað með lögum

Menntamálaráðherra Frakka hefur lögfest við því blátt bann að í skólum landsins sé stuðst við kynhlutlaust mál í námsefni fyrir börn. Hann segir reglurnar of flóknar fyrir þau.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×