Innlent

Dóms­mála­ráð­herra stendur vörð um djammið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mannlaus stræti voru einkennismerki miðborgar Reykjavíkur þegar faraldurinn stóð sem hæst. Myndin er tekin á föstudagskvöldi í apríl 2020.
Mannlaus stræti voru einkennismerki miðborgar Reykjavíkur þegar faraldurinn stóð sem hæst. Myndin er tekin á föstudagskvöldi í apríl 2020. Vísir/Vilhelm

Eigendur skemmtistaða í miðbænum telja málflutning lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um að sjá megi ávinning af styttri opnunartíma skemmtistaða vegna faraldursins, byggja á veikum forsendum. Lögreglan hefur kallað eftir samtali við hagsmunaaðila í miðborginni um endurskoðun á opnunartíma. Dómsmálaráðherra segir af og frá að reglum verði breytt á þessum forsendum.

Þannig hefur Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn til að mynda sagt að dramatísk breyting hafi átt sér stað á síðasta árinu eða svo, ef litið er til þeirra brota sem lögregla bregst við um helgar. Skemmtistaðaeigendur telja hins vegar ekki sanngjarnt að rökstyðja breytingar á opnunartíma með gögnum frá tíma þar sem fátt fólk var á ferli og fólki ráðlagt að halda sig heima í sem mestum mæli.

Ásgeir Þór sagði að lögreglan vildi ekki gefa út neina fyrirframgefna línu í þessum efnum, en kallaði eftir að lögreglan yrði hluti af samtali milli þeirra sem sækja miðborgina, starfa þar, eiga þar rekstur og búa þar. Þá sagðist hann stórefast um að niðurstaðan yrði sú að fólk vildi halda áfram í sama fari og var áður en faraldurinn setti hér allt skemmtanalíf úr skorðum.

Jón Bjarni Steinsson, eigandi Dillon og Pablo Discobar, segir að allt megi ræða í þessum efnum. Hann bendir þó á að opnunartímar og rekstrarskilyrði skemmtistaða síðasta árið teljist varla neitt til að tala um. Á því tímabili sé því lítið hægt að miða við.

„Barir eru búnir að vera lokaðir í sex mánuði af síðustu tólf, svo er opið til níu með tuttugu eða tíu manns, svo til tíu með tuttugu manns. Það er ekkert til að miða við, auðvitað er lítið í gangi þegar það er ekkert að gerast.“

Það gerist ekkert í tómu húsi, nema draugagangur

Jón Bjarni segir að opnunartími skemmtistaða um helgar, til klukkan hálf fimm, sé ekkert náttúrulögmál og segist opinn fyrir því að ræða styttri opnunartíma. Þrátt fyrir það telur hann ótækt að byggja ákvarðanir um slíkt á gögnum sem aflað var á síðustu tólf mánuðum.

„Mér finnst þetta bara bull, að ætla að fara að nota síðustu tólf mánuði. Fólk mátti ekki dansa, átti bara að sitja í sætunum sínum og fara snemma heim. Það var hvatt til að fara ekki út og vera ekki í hópum. Þetta voru svona tveir, þrír sem sátu saman.“

Jón Bjarni er eigandi Dillon. Þá hefur hann nýlega fest kaup á Pablo Discobar.

„Algjör rökleysa“

Jón Bjarni kveðst ekki skilja hvaðan yfirlögregluþjónninn Ásgeir Þór er að koma í sínum málflutningi.

„Ég les þetta á meðan það er metfjöldi í heimilisofbeldi, kynferðisafbrot aukast, barnaverndarnefnd fær fleiri tilkynningar og það er fjölgun í sjálfsvígum. Getur verið að þetta séu atriði sem skipta máli í þessu líka? Getur verið að einangrun og að fólk komist ekki út hafi áhrif?“ spyr Jón Bjarni.

Hann gefur lítið fyrir röksemdafærslu lögreglunnar um að skertur opnunartími skemmtistaða valdi því að afbrotum fækki.

„Þetta stenst enga skoðun. Þetta eru engin rök því þú ert ekki með neitt í höndunum, finnst mér. Auðvitað má taka samtal um opnunartíma skemmtistaða en við skulum ekki láta okkur detta það í hug að við getum notað ástandið í Covid. Þetta er rökleysa.“

Heilt yfir ánægður með lögregluna

Þrátt fyrir þetta segir Jón Bjarni að samskipti hans við lögregluna í tengslum við rekstur hans séu góð. Fyrir skemmstu hafi til að mynda verið haldinn fundur með eigendum skemmtistaða, yfirdyravörðum, lögreglu og borgaryfirvöldum þar sem farið varið yfir öryggismál og samstarfssamningur undirritaður.

„Ég er ofboðslega ánægður með þjónustu lögreglunnar og þegar mitt starfsfólk hefur þurft að kalla til lögreglu þá hefur hún komið um leið. Ég hef verið lengi í miðbænum og þetta hefur bara farið batnandi. Samstarfið var gott og er bara að verða betra,“ segir Jón Bjarni.

Sjálfur segir hann að ekki hafi komið upp alvarleg ofbeldisbrot á Dillon, staðnum sem hann rekur, og því sé hann ekki tilbúinn að samþykkja það þegjandi og hljóðalaust að opnunartími þar verði skertur vegna brota sem eiga sér stað annars staðar.

„Mín gagnrýni snýr ekki beint að lögreglunni. Mér finnst þetta bara vera gögn sem er ekki tækt að nota. Ég er kominn með ofnæmi fyrir því að segja þetta, en þetta hafa verið fordæmalausir tímar.“

Alltaf hægt að skoða málin

Steinþór Helgi Arnsteinsson, einn eigenda skemmtistaðarins Röntgens, segir að þó alltaf megi huga að endurbótum skemmtanalífinu til góða, sé hann á sama máli og Jón Bjarni. Það sé ótækt að rökstyðja skertan opnunartíma skemmtistaða með gögnum sem aflað var þegar faraldurinn stóð sem hæst, og fólk hékk í stórum stíl heima.

Röntgen er einn þeirra staða sem í venjulegu árferði hefur mátt hafa opið til klukkan þrjú, en ekki hálf fimm líkt og þeir staðir sem alla jafna standa djömmurum opnir hvað lengst.

„Það má alltaf skoða þetta og huga að einhverjum endurbótum en mér hugnast ekki að það eigi að fara að stytta þetta eitthvað meira eða skerða rými staða til að stjórna þessu sjálfir. Mér finnst ótækt að taka gögn yfir Covid-tímann, þegar fólk var skikkað til að vera heima hjá sér og staðir lokaðir,“ segir Steinþór Helgi.

Í besta falli sýnir það einhvers konar talnablindu

Hann segir að taka verði fleiri breytur inn í jöfnuna en eingöngu fækkun lögreglumála í miðbænum á meðan starfsemi skemmtistaða var verulega skert í faraldrinum.

„Það þarf að bera saman útköll lögreglu vegna heimapartía, aukningu á þunglyndi fólks, aukningu á heimilisofbeldi og fleiru. Mér finnst ekki alveg sanngjarnt að fara að bera saman þennan tíma og halda því fram að þetta sé betra svona.“

Steinþór Helgi telur það heillavænlegra að skoða tölfræði frá því áður en faraldurinn reið hér yfir og skemmtanalíf hér á landi lamaðist. Það telur hann raunhæfari samanburð.

„Heilt yfir er ég fylgjandi auknum sveigjanleika í opnunartíma. Þetta þarf ekki að vera svona rosalega niðurnjörvað. Ef staður er fullur á virkum degi klukkan eitt og það er eitthvað gaman í gangi, þá finnst mér að hann eigi að hafa leyfi til þess að hafa opið lengur, kjósi hann það. Þannig er þetta til dæmis í Berlín og á fleiri stöðum.“

Steinþór Helgi rekur skemmtistaðinn Röntgen.Vísir/Vilhelm

Samtalið verið einsleitt hingað til

Steinþór Helgi segist fagna öllu samtali við borgaryfirvöld og lögreglu varðandi rekstur skemmtistaða. Hann segir þó að slíkt samtal hafi hingað til virst honum einhæft og ganga aðeins í aðra áttina.

„Lögreglan mætir bara og reynir að finna einhver smáatriði varðandi samkomutakmarkanir, og er í raun að stunda einhvers konar áreiti, sem hefur gengið fram úr öllu hófi. Það hefur ekki verið mjög mikill fyrirsjáanleiki eða neitt samtal.“

Það er reynsla Steinþórs Helga að þó öllum reglum sé fylgt á staðnum, þá hafi lögreglan á tímabili knúið dyra á staðnum á hverju kvöldi og stundum oftar en einu sinni á kvöldi.

„Lögreglan á að sinna sínu eftirlitshlutverki og ef það eru einhverjar ábendingar um brot eða rökstuddur grunur þá á hún að sjálfsögðu að sinna því. En hún kemur síendurtekið þegar það er allt í góðu lagi, engar aðfinnslur, ábendingar eða áminningar eða neitt. Við hljótum að geta unnið að því að byggja upp einhvers konar traust milli beggja aðila en það er eins og það sé ekki til staðar núna,” segir Steinþór Helgi.

Hann deilir því sjónarmiði sem fleiri hafa sett fram um að erfitt geti reynst að vinda ofan af þeim reglum sem settar voru í skugga faraldursins, sem til stóð að yrðu tímabundnar.

„Það er frekar galið að vísa í einhver gögn um minni afbrot þegar fólk er bara búið að vera lokað heima hjá sér,“ segir Steinþór Helgi og minnist þess að lögregla hafi aðeins einu sinni verið kölluð á Röntgen vegna ofbeldisbrots, þegar viðskiptavinur sem vísa átti út gekk berserksgang.

„Ég hugsa að það hafi oftar verið kallað til lögreglu í einhverjum bankaútibúum þegar einhver er í annarlegu ástandi þar.“

Fleiri sem koma að skemmtanarekstri en þeir Jón Bjarni og Steinþór Helgi hafa lýst óánægju með málflutning lögreglunnar í þessum efnum. Hér að neðan má til að mynda heyra viðtal Reykjavíkur síðdegis á Bylgjunni við Arnar Gíslason hjá Blautum ehf. sem eiga og reka Lebowski bar, Kalda, Bar Irishman pub og English pub.

Áslaug skipar sér í lið með skemmtistöðum

Fleiri en þeir sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta af rekstri og lengdum opnunartíma skemmtistaða hafa einnig vakið máls á því að afstaða lögreglunnar til opnunartíma skemmtistaða byggi á undarlegum grunni.

Rithöfundurinn Halldór Armand hefur til að mynda gert málið að umfjöllunarefni í pistli sem birtist á vef Ríkisútvarpsins á sunnudag. Þar kallar hann röksemdafærslu lögreglunnar „harðstjórnarríkis-lógík“ og segir að ef hún er tekin lengra væri „auðvitað langbest að djammið væri bannað vegna þess að þá myndi ekkert slæmt gerast á djamminu.“

Meðal þeirra sem deilt hafa pistlinum er Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og æðsti yfirmaður lögreglumála í landinu. Á Twitter-síðu sinni, þar sem hún deildi pistlinum, vísar hún þá í þessi orð Halldórs Armands:

„Ekki síst vegna þess að það var það sem allir sem eitthvað vita um mannkynssöguna voru og eru búnir undir; að reynt verði að gera undantekningarástandið varanlegt.”

Stjórnvöld geti tapað öllum trúverðugleika

Í samtali við fréttastofu segir Áslaug þó ekki koma til greina að opnunartími skemmtistaða verði áfram skertur, þegar faraldrinum hefur endanlega slotað.

„Stjórnvöld missa allan trúverðugleika ef við höldum áfram einhverjum skerðingum sem voru vegna heimsfaraldurs,“ segir Áslaug.

Hún segist ekki ætla að standa fyrir því að takmörkunum sem komið var á vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar verði haldið eftir, og telur að nálgast verði málið frá öðru sjónarhorni.

„Ég lít bara á það sem svo að þegar stjórnvöld skerða réttindi og frelsi fólks vegna einhvers ástands og segja það tímabundið, verði þau að standa við það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×