Körfubolti

Sá langneðsti úr nýliðavali til að vinna MVP-verðlaunin

Sindri Sverrisson skrifar
Nikola Jokic er í miðju einvígi við Phoenix Suns en var í nótt útnefndur mikilvægasti leikmaðurinn í NBA-deildarkeppninni í vetur.
Nikola Jokic er í miðju einvígi við Phoenix Suns en var í nótt útnefndur mikilvægasti leikmaðurinn í NBA-deildarkeppninni í vetur. AP/Matt York

Nikola Jokic varð í nótt fyrsti Serbinn og fyrsti leikmaður Denver Nuggets til að verða útnefndur mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta. Hann er þriðji Evrópubúinn í sögunni til að afreka það.

Jokic er á fullu í úrslitakeppninni þar sem hann mætir Phoenix Suns í öðrum leik í kvöld, í undanúrslitum vesturdeildarinnar.

Tveir leikir fóru fram í nótt þegar Utah Jazz tók 1-0 forystu gegn LA Clippers, með 112-109 sigri, og Philadelphia 76ers unnu Atlanta Hawks 118-102 og jöfnuðu einvígið í 1-1.

Auk Jokic hafa eru Þjóðverjinn Dirk Nowitzki og Grikkinn Giannis Antetokounmpo einu Evrópubúarnir sem valdir hafa verið mikilvægustu leikmenn NBA-deildarinnar.

Jokic lék alla 72 leiki Denver í deildarkeppninni í vetur og skoraði að meðaltali 26,4 stig í leik, tók 10,9 fráköst, gaf 8,4 stoðsendingar og stal boltanum 1,32 sinnum.

Enginn hefur hlotið útnefninguna eftir að hafa verið eins neðarlega í nýliðavalinu og Jokic. Denver valdi hann í 2. umferð nýliðavalsins árið 2014 og var hann númer 41 í röðinni. Antetokounmpo og Steve Nash voru áður þeir neðstu í nýliðavali til að vinna MVP-verðlaunin en voru þó í 15. sæti í sínu nýliðavali. Þess ber þó að geta að Moses Malone, sem þrívegis var valinn mikilvægasti leikmaðurinn á árunum 1979-83, kom ekki inn í deildina úr nýliðavalinu.

Hundrað íþróttafréttamenn um allan heim standa að valinu á verðmætasta leikmanni NBA-deildarinnar. Joel Embiid úr Philadelphia 76ers varð í 2. sæti og Stephen Curry, leikmaður Golden State Warriors, varð í 3. sæti. Antetokounmpo og Chris Paul komu svo þar á eftir.

Embiid og Mitchell rufu 40 stiga múrinn

Embiid skoraði 40 stig í sigri Philadelphia gegn Atlanta í nótt. Einvígið færist nú yfir til Atlanta þar sem liðin mætast á föstudagskvöld.

Donovan Mitchell átti stærstan þátt í sigri Utah á LA Clippers en hann skoraði 45 stig í leiknum, þar af 32 stig í seinni hálfleiknum. Næsti leikur liðanna er í Salt Lake City á morgun.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×