Skoðun

Þau sem láta verkin tala

Auður Guðjónsdóttir skrifar

Hér með hvet ég sjálfstæðisfólk í Reykjavík til að mæta í prófkjör og kjósa Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra í 1. sæti. Af mörgu góðu sem hann hefur áorkað í ráðherratíð sinni vil ég leyfa mér að fullyrða að það sem að neðan greinir sé það almerkilegasta sem hann hefur gert og sem á eftir að bera ávöxt til allrar framtíðar fyrir allt mannkynið.

Ég leyfi mér einnig að fullyrða að Guðlaugur Þór sé eini utanríkisráðherrann í veröldinni sem talar máli lækningar á lömun hjá viðeigandi alþjóðastofnunum. Það hefur hann gert í einkaviðtölum og með bréfasendingum til háttsettra aðila innan Sameinuðu þjóðanna og í ræðum sínum á allsherjarþingum stofnunarinnar þar sem hann hvatti til að lækning í taugakerfinu yrði gerð að forgangsmáli. Einnig hefur hann plægt akurinn rækilega hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni WHO sem hefur leitt til þess að Tetros Ghebreyesus aðalframkvæmdastjóri WHO hefur sett í stefnuyfirlýsingu stofnunarinnar að öll ráð skuli nýtt til að lækning finnist í taugakerfinu. Til að vinna að framgangi málsins hjá WHO setti Guðlaugur Þór á fót embætti sérstaks erindreka fyrir mænuskaða og taugakerfið með aðsetur í Genf auk þess að leggja fram fé til að Ísland geti orðið eitt af stofnríkjum nýs verkefnis innan WHO þar sem tekið skal sérstaklega á málefnum taugakerfisins.

Frá því Guðlaugur Þór var heilbrigðisráðherra höfum við rölt saman hinn torsótta veg sem leiðir til að lækning finnist við mænuskaða/lömun. Með því að beita pólitískum áhrifum sínum innan viðeigandi alþjóðastofnana er Guðlaugur Þór að búa í haginn fyrir alþjóðlegt taugavísindasvið í leitinni að lækningu á svo erfiðum skaða sem lömun er. Stöðu sinnar vegna þarf hann ekki að beita sér. Það gerir hann hinsvegar vegna þess að hann hefur hjartað á réttum stað. Mér er því mikið í mun að minn góði vinur hljóti kosningu í 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna sem nú stendur yfir og bið sjálfstæðismenn í Reykjavík um að þyrpast á kjörstað og koma honum þangað. Einnig vil ég biðja fólk um að kjósa Diljá Mist Einarsdóttir aðstoðarmann utanríkisráðherra í 3. sæti. Í hennar tíð í utanríkisráðuneytinu hefur hún komið mikið að ofangreindum málum með miklum velvilja. Þar fer réttsýn kona.

Höfundur er skurðhjúkrunarfræðingur og stjórnarformaður Mænuskaðastofnunar Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×