Körfubolti

„Þá fer allt í svona „slow motion“ og menn frjósa í kringum hann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er mjög erfitt að lesa Val Orra Valsson eins og sést vel á þessari mynd.
Það er mjög erfitt að lesa Val Orra Valsson eins og sést vel á þessari mynd. Vísir/Vilhelm

Valur Orri Valsson sýndi mikilvægi sitt í sigri Keflvíkinga á KR í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Domino's deild karla í körfubolta. Valur Orri fékk líka hrós í Domino's Körfuboltakvöldi eftir leikinn í gærkvöldi.

Valur Orri var með 11 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Það vantaði reyndar skráða stolna bolta á hann. Stolni boltinn hans á Tyler Sabin í fjórða leikhluta var sem dæmi skráður á Calvin Burks Jr. Það sem er á hreinu er að Valur Orri var að öllum ólöstuðum líklega mikilvægasti leikmaður Keflavíkurliðsins í þessum leik.

„Þetta var þvílíkur leikur sem Valur Orri átti,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson og gaf boltann á sérfræðinginn sinn Hermann Hauksson.

Klippa: Dominos Körfuboltakvöld: Valur Orri var frábær

„Frábær leikur hjá honum og þessi stolnu boltar hjá honum þegar hann var að taka boltann af Sabin komu á mjög stórum tímapunktum. Hann var að setja niður stór skot og hann var að fara á körfuna. Leikurinn sem hann spilar er ofboðslega skemmtilegur af því að hann spilar á einhverju allt öðru tempói en aðrir leikmenn í þessari deild,“ sagði Hermann.

„Um leið og hann fær boltann þá fer allt í svona „slow motion“ og menn frjósa í kringum hann. Hann er með þannig hreyfingar. Hann tekur skot án þess að hoppa sem gerir varnarmanninum mjög erfitt fyrir að lesa hvort hann eigi að falla fyrir því eða ekki. Ef hann fellur því þá fer Valur á körfuna eða finnur leikmenn,“ sagði Hermann.

„Ég vill oft sjá hann skjóta meira því hann er frábær skotmaður. Það sem hann gerði í kvöld er það sem maður veit að hann getur. Hann var ekki bara frábær sóknarlega því hann var frábær varnarlega. Allt sem hann gerði var svo mikilvægt,“ sagði Hermann.

Það má sjá umfjöllunina um Val Orra hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×