Handbolti

Þetta er klikkaður klúbbur og gaurarnir eru ekkert eðli­lega skemmti­legir

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
5D4_3362

Kristján Orri Jóhannsson, leikmaður Kríu og markahæsti leikmaður tímabilsins í Grill66 deildinni var að vonum ánægður eftir leik í kvöld þegar Kría tryggði sig upp í Olís deildina á sínu fyrsta tímabili í næst efstu deild.

„Þetta er alveg sturlað, þetta var markmiðið okkar allan tímann,“ sagði Kristján Orri eftir leikinn gegn Víkingum í Hertz-höllinni í kvöld þar sem Kría vann einvígið 2-0 í umspilinu um laust sæti í efstu deild.

Kristján Orri var einn af markahæstu leikmönnum Olís deildarinnar áður en hann skrifaði undir við Kríu í næst efstu deild. Þessi hægri hornamaður spilaði síðast fyrir ÍR í efstu deild en kvaddi Breiðholtið líkt og flest allir lykilmenn liðsins. 

En hvernig var að spila í Grill66 deildinni?

„Þetta var mjög skemmtilegt, þetta er klikkaður klúbbur og gaurarnir eru ekkert eðlilega skemmtilegir,“ sagði Kristján og bætti því við hvað honum fannst orðið gaman að mæta á æfingar.

„Ég fann bara hvað það var aftur orðið gaman að mæta á æfingar, fann fyrir tilhlökkun að mæta og það er langt síðan ég hef fundið þessa tilfinningu. Eins og þetta hefur verið í Olís deildinni þá er þetta oft mikil kvöð, rosalega mikið æft, mikið af video-fundum og því um líkt“

„Hérna æfum við tvisvar í viku, leikur á föstudögum og kaldur inn í klefa, bara geðveikt.“

Kristján Orri var yfirburðar leikmaður í deildinni í vetur og segir það hafa verið skemmtilega áskorun að standast þá pressu sem fylgdi því að mæta sem lykilleikmaður úr Olís deildinni niður í næst efstu deild.

„Þetta var mikil persónuleg áskorun fyrir mig að fara niður í Grillið eftir að hafa verið lengi í Olís deildinni með ágætum árangri. Ég var með mín persónulegu markmið fyrir þetta mót og ég held ég hafi alveg náð þeim.“

Eftir að hafa notið þess að spila í Grill66 deildinni var Kristján hikandi þegar hann var spurður hvort hann væri tilbúinn að fara aftur upp í Olís deildina

„Jájá segjum það bara.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×