Skoðun

„Bæta þarf gæði gagna!“

Erna Bjarnadóttir skrifar

Undanfarin misseri hefur sjónum mjög verið beint að tölfræði yfir innflutning landbúnaðarvara til landsins. Nokkur harka hefur jafnvel færst í leikinn og er ég þar að vísa til ummæla sem Páll Rúnar M. Kristjánsson hrl. lét falla í Viðskiptablaðinu sem birtist 20. maí sl. Þar er m.a. haft eftir honum um athafnir stjórnvalda hvað varðar tollmeðferð erlends mjólkurosts: „Öðru fremur er hins vegar um að ræða grundvallarmál að því er varðar hvernig heimilt er að beita opinberu valdi til að ganga erinda eins markaðsráðandi fyrirtækis gegn þeirri litlu samkeppni sem það fær.“ Hér birtist mjög sérstakur málflutningur þar sem gert er að því skóna að stjórnvöld gangi erinda kúabænda. Það er með nokkrum ólíkindum að ekki hafi verið leitað sjónarmiða Skattsins né fjármála- og efnahagsráðuneytisins áður en slík ummæli eru birt svo sver sem þau eru. Vekur furðu að fjölmiðill sem kennir sig við viðskipti skuli ekki sinna þessum grunnskyldum sínum. Að þessir aðilar, Skatturinn og fjármála- og efnahagsráðuneyti, beri heldur ekki hönd fyrir höfuð sér er svo önnur saga.

Það er marg búið að sýna fram á að til staðar er misræmi milli þess sem er skráð sem útflutningur búvara frá ESB löndum samkvæmt skýrslum Eurostat og innflutningur til Íslands samkvæmt opinberum skýrslum Hagstofu Íslands frá sömu löndum. Slíkt misræmi á einfaldlega ekki að vera til staðar miðað við fyrstu sex stafi í tollskrárnúmeri ef alls staðar er rétt gert. En nú í apríl mánuði tók skörin heldur betur að færast upp í bekkinn. Þann 7. desember 2020 lagði Þorsteinn Sæmundsson þm. fram skriflega fyrirspurn á Alþingi til skriflegs svars um innflutning á osti og kjöti og fleiri landbúnaðarvörum árin 2019 og 2020, sjá hér.

Skriflegt svar fjármála- og efnahagsráðherra við þessari fyrirspurn er dagsett 21. apríl sl. Það svar passar hins vegar hvorki við tölur Hagstofu Íslands um innflutning og eru mun lægri þó viðskipti við Bretland séu ekki meðtalin í tölum Hagstofu Íslands, Þær eru líka í flestum tilvikum mun og jafnvel margfalt lægri en útflutningstölur frá ESB þó aðeins sé borið saman við innflutning frá 27 löndum (án Bretlands) Fróðlegt er að taka fáein dæmi í þessu sambandi. Þau eru þó aðeins á fyrstu fjóra stafi í tollskrárnúmeri. Misræmið kann að vera meira milli sex stafa númera. Þannig aðeins er t.d. hægt að greina á milli kjöts á beini og kjöts sem er beinlaust en töluverður munur er á tollum þar á milli.

Viðskipti með landbúnaðarvörur milli Íslands og ESB landa árið 2019:

Þessi tafla kallar á rækilegar skýringar. Hvers vegna gefur fjármálaráðuneytið í svari sínu, sem vafalaust er unnið af undirstofnun þess Skattinum, upp tölur sem passa ekki við tölur Hagstofu Íslands. Hvaða tölur eru réttar? Höfundur þessarar greinar telur rétt að treysta helst tölum frá Hagstofu ESB þegar þrjú mismunandi stjórnvöld á Íslandi geta ekki verið sammála um þessar innflutningstölur. Í framhaldinu blasir sú spurning við á hverju íslensk stjórnvöld byggja sína hagsmunagæslu þegar farið er í milliríkjasamninga, t.d. þegar samið er um viðskipti milli Íslands og ESB eða við Bretland með landbúnaðarvörur. Réttar hagtölur eru þar grundvallaratriði til að unnt sé að meta íslenska viðskiptahagsmuni. Misræmi sem gengur í „báðar áttir“ eins og fjármála- og efnahagsráðherra kallar það, er vitaskuld skýring sem hvorki heldur vatni né varpar ljósi að hið rétta um þessi viðskipti.

Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá MS.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Á meðal þeirra sem við þjónum

Ása Laufey Sæmundsdóttir,Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir,Guðný Hallgrímsdóttir,Hreinn Hákonarson,Kristín Pálsdóttir,Sigrún Margrétar Óskarsdóttir,Toshiki Toma skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.