Handbolti

Tókum ákvörðun fyrir leik að við værum í handbolta til að vinna

Andri Már Eggertsson skrifar
Sigursteinn var sáttur með sigurinn
Sigursteinn var sáttur með sigurinn Vísir/Vilhelm

Deildarkeppnin í Olís deild karla lauk í kvöld með heilli umferð. FH vann tveggja marka sigur á ÍBV 28-26 sem á endanum þýddi að liðin mætast í 8-liða úrslitum á mánudaginn.Sigursteinn Arndal þjálfari FH var sáttu með sigurinn í leiks lok. 

„Ég er mjög ánægður með sigurinn í kvöld. Við spiluðum góða vörn í fyrri hálfleik, heilt yfir var það vörnin sem skilaði sigrinum í kvöld," sagði Sigursteinn eftir leik.

Vörn FH var frábær í fyrri hálfleik og skoruðu Eyjamenn aðeins tvö mörk á þrettán mínútum sem Sigursteinn var afar sáttur með.

„Við náðum góðum kafla varnarlega um miðjan fyrri hálfleik vegna þess við vorum búnir að leggja upp með að gera ákveðna hluti sem gekk upp."

ÍBV átti góðan kafla í upphafi síðari hálfleiks þar sem þeir tóku 9-2 áhlaup og jöfnuðu leikinn í 23-23.

„ÍBV er hörkulið við vissum alveg að þeir myndu ekkert leggja árar í bát heldur koma aftur inn í leikinn. Við þurftum bara vera klárir í þetta áhlaup sem við gerðum í leiknum."

„Á þessum kafla hefði ég viljað sjá mitt lið fara betur með færin sem við fengum, ásamt því þá hefði ég viljað sjá betri vörn hjá mínu liði í þeim kafla."

FH gerði vel þegar leikurinn var sem mest í járnum að bæta við aukakraft sem á endanum varð til þess að þeir unnu leikinn 28-26.

„Við tókum ákvörðun fyrir leik að við erum í handbolta til að vinna leiki og ná árangri. Við vildum vinna þennan leik sem kom á daginn að við gerðum," sagði Sigursteinn sáttur með sigurinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×