Körfubolti

Kallaði fram kjánahroll og minningar um gerviíþrótt í Bandaríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Hafþór Ríkharðsson sést hér lenda á veggnum í Grindavík.
Björgvin Hafþór Ríkharðsson sést hér lenda á veggnum í Grindavík. S2 Sport

Það hefur verið hart tekist á í úrslitakeppni Domino's deildar karla í körfubolta en leikaraskapurinn er líka til staðar eins og sannaðist í Grindavík í síðasta leik.

„Órúlegir hlutir gerast í körfubolta en ég hef aldrei séð þetta hérna,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Domino's Körfuboltakvölds þegar hann kynnti inn myndband með Grindvíkingnum Björgvin Hafþóri Ríkharðssyni.

Björgvin lenti út í vegg eftir samskipti sín við Ægi Þór Steinarsson í fjórða leik Grindavíkur og Stjörnunnar í einvígi liðanna í átta liða úrslitunum.

Það fór hins vegar ekkert á milli mála að Björgvin kastaði sér á vegginn til að reyna að fiska eitthvað á Ægi. Strákarnir í Domino's Körfuboltakvöldi voru mjög hneykslaðir á Grindvíkingnum.

S2 Sport

„Ég veit ekki hvað drengurinn er að hugsa. Ég fékk svo ofsalegan kjánahroll í gær,“ sagði Kristinn Friðriksson, sérfræðingur í Domino's Körfuboltakvöldi.

„Hann togar vissulega aðeins í hann,“ skaut Kjartan Atli inn í. Það er satt en skýrir ekki af hverju Björgvin skellur í veggnum.

„Ég hef oft séð svona en ekki í körfubolta samt. Það er til íþrótt í Bandaríkjunum sem heitir Wrestling sem fullt af fólki heldur að sé í alvöru en menn eru bara að kasta sér í hringnum. Svo fara þeir upp í kaðlana og hoppa á hvorn annan. Þetta minnti mig svolítið á það,“ sagði Benedikt Guðmundsson, sérfræðingur í Domino's Körfuboltakvöldi.

„Hann þarf að fara í leikslistaskólann ef hann ætlar að vera betri í þessu. Þetta leit ekki vel út,“ sagði Kristinn kaldhæðinn.

„Ég lék í Vodafone-auglýsingu í þessum sal fyrir tveimur til þremur árum. Ég er hugsanlega lélegasti leikari sem einhver leikstjóri hefur fengið í hendurnar. Þetta var lélegra en það,“ sagði Benedikt.

Það má sjá leikaraskapinn og umfjöllunina hér fyrir neðan.

Klippa: Dominos Körfuboltakvöld: Björgvin og veggurinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×