Körfubolti

Sara Rún: Við gerðum þetta saman

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það gekk lítið að stöðva Söru Rún í kvöld.
Það gekk lítið að stöðva Söru Rún í kvöld. Vísir/Bára

„Ég er virkilega ánægð. Við mættum tilbúnar, Keflavíkurstelpurnar voru flottar í þessari seríu og þetta voru skemmtilegir leikir, “ sagði Sara Rún Hinriksdóttir leikmaður Hauka eftir að liðið tryggði sér sæti í úrslitaeinvígi Domino´s deildar kvenna.

Haukaliðið tók frumkvæðið í leiknum í kvöld strax í upphafi og Sara sagði að lykillinn að sigrinum hefði verið liðsheildin og vörnin.

„Góður varnarleikur og barátta. Við fórum á eftir öllum fráköstum, það voru stelpur sem stigu upp eins og alltaf. Við gerðum þetta saman og þetta gekk.“

Keflavík gekk bölvanlega að skora á löngum stundum í kvöld og ljóst að Haukarnir höfðu kortlagt sóknarleik gestanna vel.

„Við allavega einbeitum okkur svolítið að vörninni og vonandi gengur þetta. Þær taka svolítið mikið af þristum og við fórum vel yfir þeirra sóknarleik og vildum ekki að þær myndu komast þangað sem þær vildu. Það gekk vel upp í dag.“

Það er oft talað um að vörn vinni titla og með sama varnarleik og baráttu sem Haukaliðið sýndi í kvöld er ljóst að þær munu eiga í fullu tré við Val sem hefur á að skipa frábæru liði.

„Ég er ekkert búinn að hugsa mikið um þær. Valur er mjög gott lið og með frábæra leikmenn sem hafa spilað lengi saman. Það verður góð rimma og ég er spennt fyrir henni,“ sagði Sara Rún að lokum.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×