Körfubolti

Vantaði bara eina stoðsendingu til að ná meti pabba síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Kár Jónsson í leik með Grindavíkurliðinu. Hann hækkaði sig um 9 stig og 8 stoðsendingar frá því í leik eitt.
Dagur Kár Jónsson í leik með Grindavíkurliðinu. Hann hækkaði sig um 9 stig og 8 stoðsendingar frá því í leik eitt. Vísir/Bára

Dagur Kár Jónsson var allt í öllu þegar Grindvíkingar jöfnuðu einvígið á móti Stjörnunni í átta liða úrslitum Domino´s deildar karla í körfubolta í gærkvöldi.

Dagur Kár var með 21 stig og 13 stoðsendingar í 101-89 sigri Grindavíkurliðsins en alls skilaði hann 33 framlagsstigum til síns liðs.

Dagur Kár setti þarna persónulegt stoðsendingamet í úrslitakeppni en hann var líka mjög nálægt því að jafna félagsmet föður síns Jóns Kr. Gíslasonar.

Jón Kr. er áfram sá Íslendingur sem hefur gefið flestar stoðsendingar í einum leik í úrslitakeppni fyrir Grindavík en sjálft félagsmetið í úrslitakeppni á Warren Peebles sem gaf sextán slíkar í þríframlengdum leik á móti Keflavík árið 1999.

Jón Kr. gaf mest fjórtán stoðsendingar í leik með Grindavík í úrslitakeppni en sá leikur var á móti Skallagrími í Röstinni í Grindavík 9. mars 1997. Dagur Kár var þá nýbúinn að halda upp á tveggja ára afmælið sitt.

Jón Kr. er ansi áberandi á topplistanum en Dagur Kár stakk sér inn á milli nokkra stoðsendingaleikja föður síns með þessari frammistöðu í gær.

Dagur skoraði líka 21 stig í leiknum í gær en pabbi hans var aðeins með þrjú stig þegar hann setti stoðsendingametið.

Flestar stoðsendingar Íslendinga í einum leik í úrslitakeppni hjá Grindavík:

  • 14 - Jón Kr. Gíslason á móti Skallagrími 9. mars 1997
  • 13 - Dagur Kár Jónsson á móti Stjörnunni 18. maí 2021
  • 12 - Jón Kr. Gíslason á móti Njarðvík 20. mars 1997
  • 12 - Jón Kr. Gíslason á móti Keflavík 3. apríl 1997
  • 10 - Jón Kr. Gíslason á móti Njarðvík 18. mars 1997
  • 10 - Arnar Freyr Jónsson á móti Snæfelli 28. mars 2009
  • 10 - Arnar Freyr Jónsson á móti Snæfelli 29. mars 2010
  • 10 - Jón Axel Guðmundsson á móti KR 17. mars 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×