Körfubolti

Bjarki: Það verður flottara Þórslið sem mætir á miðvikudaginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Ármann Oddsson var nokkuð sáttur við spilamennsku sinna manna þrátt fyrir stórt tap.
Bjarki Ármann Oddsson var nokkuð sáttur við spilamennsku sinna manna þrátt fyrir stórt tap.

Bjarki Ármann Oddson, þjálfari Þórs Akureyri, var nokkuð brattur eftir fyrsta leik liðsins í úrslitakeppninni þrátt fyrir 19 stiga tap. Lokatölur 95-76, en Bjarki einblíndi á það jákvæða.

„Ég er bara nokkuð ánægður með strákana svona lengst um í leiknum,“ sagði Bjarki eftir leikinn. „Við gleymdum okkur aðeins í vörninni á köflum. Það má auðvitað ekki skilja menn eins og Larry eftir í eina sekúndu og Þórsarar bara gengu á lagið og fundu opnanir í okkar vörn.“

Þór Ak. var án síns besta leikmanns í kvöld, en Dedrick Basile er í leikbanni. Bjarki segir að það hafi sett strik í reikninginn.

„Við söknuðum klárlega Dedrick í dag og það sást á sóknarleiknum hjá okkur. Við vorum voðalega stífir og stirðir og það sést bara á okkar sóknarleik. Hann er með boltann í höndunum í hverri einustu sókn og lungann úr þeirri sókn líka. En því fór sem fór.“

„En ég er ofboðslega ánægður með vinnusemina hjá strákunum stóran hluta leiksins. Ég er mjög ánægður með íslensku ungu strákana sem komu inn á í lokinn og að sjálfsögðu gamla brýnið Hrafn Jóhannesson.“

Þórsarar héldu í við heimamenn stærstan hluta fyrri hálfleiks en svo fór að halla undan fæti. Bjarki segir að leikmönnum hafi vantað einbeitingu.

„Við vorum oft að gleyma Larry þarna í lok annars og þriðja leikhluta. Þór Þorlákshöfn er svona lið áhlaupa sem setur kannski tvo þrista á þig í röð og við vorum bara að gleyma okkur. Við vorum bara ekki með mennina eða fæturna í dag til þess að hægja á þeim. Það verður flottara Þórslið sem mætir á miðvikudaginn.“

Akureyringar sóttu mikilvægan sigur í Þorlákshöfn fyrir rúmri viku. Bjarki segir að mikill munur hafi verið á leiknum þá og í kvöld.

„Það er auðvitað ekki gott ef við töpum frákastabaráttunni. Við erum með mun hærra lið og þurfum að gera mun betur þar. Skotin voru ekki að detta í dag sem voru að detta þá. Það er kannski svona helsti munurinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×