Skoðun

Fjölmiðlafyrirtæki virðir ekki höfundarétt

Matthías Freyr Matthíasson skrifar

Fyrir tæpum hálfum mánuði síðan sá ég umræður á internetinu, þar sem var verið að ræða um hversu miklu betra það er að tækla vandamálin, þegar maður er kominn í öngstræti og sér ekki lausnir úr þeim vandamálum sem maður upplifir og grefur hausinn lengra í sandinn í stað þess að takast á við vandamálin. Ég í kjölfarið ritaði nokkur tíst á Twitter, eins og ég á stundum til að gera. Yfirleitt eru tístin mín, tilraun miðaldra hvíts karlmanns til þess að vera fyndinn. Þegar ég er ekki að reyna að vera fyndinn er ég að tísta um fótbolta og einstöku sinnum um pólitík. En þarna á þessu mómenti var ég að opna á gamalt box sem var búið var að vera lokað í dágóðan tíma. Vegna þess að ég skammaðist mín. Mig langaði ekki lengur til að skammast mín.

Án þess að fara of djúpt í það (aðallega því ég nenni ekki að endurrita tístin mín) en þá snerist þau um hversu lítinn skilning á fjármálum ég hafði (og hef að vissu leyti enn í dag) og eftir langvarandi atvinnuleysi í kjölfar hrunsins, voru skuldir mínar orðnar allt of miklar til þess að ég gæti höndlað það.

Ég taldi mig vita að þessi tíst gætu vakið einhverja athygli. Gott og blessað. Sem og þau gerðu. Fjölmargir aðilar lásu þau, gáfu komment og eða „hjörtuðu” skilaboðin. Sem voru vel að merkja jákvæð, ekki loka augunum fyrir vandamálunum, leitastu frekar eftir aðstoð ef þörf er á.

En það sem gerðist daginn eftir var eitthvað sem ég hef sterka skoðun á. Ákveðnir „fjölmiðlar” tóku tístin mín beint upp, orðrétt, án þess að hafa fyrir því að vinna málið af einhverri fagmennsku. Heldur henda þeim upp sem „frétt” á sínum miðlum og það án þess að leitast eftir samþykki frá mér eða ræða það við mig á nokkurn hátt. Það eru vinnubrögð sem mér finnst ekki að fjölmiðill sem vill vera vandur að virðingu sinni, stundar. Alvöru fjölmiðlar og fjölmiðlafólk, leitast eftir heimildum og sinnir sinni vinnu af fagmennsku og alúð. Leggur metnað sinn í að skila sem bestu efni af sér. Ekki svona helvítis fúsk.

En því miður ganga þessir „fjölmiðlar” sem þetta stunda, bara þolanlega. Því við almenningur (ég ekki undanskilinn) leyfum þeim að komast upp með það með því að lesa „fréttirnar” sem þeir setja út frá sér.

Ég gæti í raun skrifað nokkra kafla um það hvernig mér finnst fjölmiðlar sumir hverjir á íslandi sinna sínum störfum. En ég ætla að láta staðar numið við það…..í bili.

Í þessari „frétt“ sem Hringbraut „vann” setja þeir í stríðsfyrirsögn, hluta af frásögn minni á Twitter og það sem skipti minnstu máli í minni frásögn. En það var ekki nóg, því líka tóku þeir ljósmynd, í minni eigu, sem ég birti sem „prófíl” mynd á minni Twitter síðu og skeyta henni saman við fyrirsögnina.

Ljósmyndarinn sem tók myndina og seldi mér, hafði samband við mig. Spurði mig hvort að Hringbraut/Fréttablaðið/Torg hefðu fengið leyfi frá mér til þess að birta þessa mynd. Svarið var neitandi. Ljósmyndarinn tjáði mér að alvanalegt væri þá að óska eftir greiðslu fyrir ólöglegra notkun á ljósmynd. Sendi ég því greiðsluseðil á Hringbraut/Fréttablaðið/Torg þar sem kom fram hófleg greiðsla (25.000.kr) fyrir afnot af ljósmynd í minni eigu. Þeirri kröfu minni var umsvifalaust hafnað.

Þeim pósti svaraði ég með m.a. eftirfarandi hætti og rökstyð frekar hvers vegna ég telji mig eiga rétt á greiðslu fyrir afnot af ljósmynd í minni eigu:

„Í Höfundalögum nr. 73/1972, nánar tiltekið í 49.gr kemur eftirfarandi fram:

„Eftirgerð ljósmynda, sem ekki njóta verndar laga þessara sem listaverk, sbr. 2. mgr. 1. gr., er óheimil án samþykkis ljósmyndara eða þess aðilja, sem rétt hans hefur hlotið. [Enn fremur er óheimilt að birta slíkar ljósmyndir án samþykkis rétthafa.] 1) Nú er slík mynd birt opinberlega í atvinnuskyni eða ávinnings, og á ljósmyndari eða síðari rétthafi þá kröfu til þóknunar. Vernd ljósmyndar samkvæmt þessari grein skal haldast, uns liðin eru [50 ár] 1) frá næstu áramótum eftir gerð hennar”

Kröfu minni var aftur hafnað. Á þeim forsendum að ég hefði birt ljósmyndina á samfélagsmiðli og því væri fjölmiðlinum heimilt að nota hana. Þegar skýrt er, eins og ég hef skilið hlutina hingað til og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég aflaði mér að ljósmyndir sem ég birti, eru í minni eigu og má ekki birta án míns leyfis eða samþykkis.

Setti ég því hlutina upp í þetta samhengi við umrætt fjölmiðlafyrirtæki sem notar m.a. umrædda samfélagsmiðla til þess að koma sínu efni á framfæri.

,,Ef ég myndi setja upp vefsíðu. Færi svo á samfélagsmiðla fjölmiðlafyrirtækisins og tæki ljósmyndir sem fyrirtækið á og hefur greitt fyrir og myndi birta þær á minni vefsíðu sem mín eign. Hvað myndi fjölmiðlafyrirtækið gera?“

Svarið sem ég fékk (og þarna var vika liðin frá birtingu ,,fréttarinnar”) var á þann veg að það gæti tekið ,,fréttina” úr birtingu og ég beðinn afsökunar. Ég svaraði því til að ég hefði tekið því tilboði ef það hefði borist strax í byrjun. En þar sem það gerðist ekki og ,,fréttin” í birtingu í vikutíma, sæi ég ekki annað fært en að halda mig við kröfu mína en væri tilbúinn til þess að lækka hana um 10.000.kr sem og ,,fréttin” yrði tekin úr birtingu og ég beðinn afsökunar.

Skemmst frá því að segja að fjölmiðlafyrirtækið neitaði að ganga að þessu tilboði mínu og jafnframt tók það fram að þótt það hefði verið tilbúið til að taka ,,fréttina” úr birtingu og biðjast afsökunar að þá væri það ekki merki þess að það viðurkenndi að hafa gengið á minn rétt.

Mig langar mikið til að birta hér ljósmynd sem viðkomandi fjölmiðlafyrirtæki birti á sínum samfélagsmiðli……..en ég vill ekki lenda í lögsókn.

Höfundur er laganemi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.