Handbolti

Hlutverk dómara er að vernda leikmennina

Andri Már Eggertsson skrifar
Gunnar var afar svekktur með dómgæsluna í kvöld
Gunnar var afar svekktur með dómgæsluna í kvöld Vísir/Hulda

Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar, var afar svekktur með að ná ekki að landa sigri gegn KA eftir að Mosfellingar voru yfir lungann af leiknum og missa hann niður í jafntefli 27-27.

„Frammistaðan í kvöld var frábær, síðustu mínútur leiksins voru erfiðar en það var ekki við okkur að sakast þar, KA liðið er mjög gott, stigið er mikilvægt en svekktur að þau hafa ekki verið tvö,“ sagði Gunnar.

Leikurinn var jafn framan af í fyrri hálfleik en Afturelding tók þá við sér með góðu áhlaupi og voru yfir í hálfleik 17-14.

„Við héldum aganum betur í þessum leik miðað við aðra sem við höfum verið að spila í vetur sem ég er mjög ánægður með, vorum góðir á báðum endum vallarins sem gerði það að verkum að við vorum þremur mörkum yfir í hálfleik.“

Gunnar talaði um að þeir spiluðu á fáum leikmönnum í restina þar sem margir af hans mönnum voru farnir útaf vegna meiðsla og því var róðurinn orðin mjög þungur undir restina.

Dómgæslan í leiknum var afar sérstök og leyndi Gunnar því ekki að það sauð á honum vegna margra atvika sem voru metin á sérstakan hátt.

„Þorsteinn Leó er á leiðinni upp á sjúkrahús í sjúkrabíl þar sem hann lenti illa eftir högg,“ sagði Gunnar sem vildi þó sjá brotið aftur í sjónvarpinu áður en hann myndi fella stóra dóminn. 

„KA gerði það tvisvar í leiknum að taka risa stórt skref þegar Úlfar Monsi fór í gegn sem er hættuleikur. Bergvin var líka tekinn hraustlega niður sem ég á eftir að sjá aftur,“ sagði þjálfarinn. 

„Ég er ekki að ásaka neinn um viljaverk en hlutverk dómara er að vernda leikmennina, þetta eru slys sem gerast en dómarar leiksins verða að vernda leikmennina þegar svona atvik eiga sér stað,“ sagði Gunnar að lokum. 


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.